"Það er afar mikilvægt að konur jafnt sem karlar, sem þurfa að leita til dómstóla til að fá úrlausn mála sem skipta þau miklu, geti speglað sig í réttinum. Það er mikilvægt að ungir og gamlir, með mismunandi lífsreynslu og mismunandi hæfileika til að sjá það sem fólk á sameiginlegt, geti haft traust á réttinum. Og rétt eins og í tilfelli Alþingis, skiptir máli að það sjáist að konur jafnt sem karlar taki ákvarðanir á æðstu stöðum." Þetta segir Ragnhildur Helgadóttur, forseta lagadeildar Háskólans í Reykjavík (HR), í grein sem kemur út í tímariti HR í október.
Í kjölfar niðurstöðu dómnefndar um skipað nýs hæstaréttardómara, sem telur Karl Axelsson hæstaréttarlögmann hæfari til setu í Hæstarétti en Davíð Þór Björgvinsson og Ingveldi Einarsdóttur, þó menntun þeirra og reynsla af dómarastörfum sé mun meiri, var greinin birt í dag.
Dómnefndin sem taldi Karl hæfastan var skipuð fimm körlum. Sem stendur er ein kona á meðal þeirra tíu hæstaréttardómara sem skipaðir eru.
Afar mikilvægt að geta speglað sig í réttinum
Ragnhildur bendir á í grein sinni að flestum finnst skipta máli að á Alþingi sitji misjafnt fólk með misjafna reynslu; á ýmsum aldri, af báðum kynjum, með mismunandi menntun og lífsreynslu. Og að langflestir séu þeirrar skoðunar að kyn sé meðal þeirra þátta sem móta lífsreynslu fólks.
Hlutverk dómstóla sé vissulega gerólíkt hlutverki Alþingis. Þeir móti almennt ekki stefnu heldur leysi endanlega úr þeim málum sem til þeirra er vísað. Rök um táknrænt mikilvægi blandaðs hóps og rökin um speglun eiga samt sem áður við um dómstólana rétt eins og um Alþingi. "Það er afar mikilvægt að konur jafnt sem karlar, sem þurfa að leita til dómstóla til að fá úrlausn mála sem skipta þau miklu, geti speglað sig í réttinum. Það er mikilvægt að ungir og gamlir, með mismunandi lífsreynslu og mismunandi hæfileika til að sjá það sem fólk á sameiginlegt, geti haft traust á réttinum. Og rétt eins og í tilfelli Alþingis, skiptir máli að það sjáist að konur jafnt sem karlar taki ákvarðanir á æðstu stöðum.
Það er þess vegna skrýtið – þó horft sé til mismunandi hlutverka Alþingis annars vegar og dómstóla hins vegar – að við sem þjóð vinnum markvisst að því að auka hlut kvenna á þingi en látum okkur engu skipta afar lágt hlutfall kvenna í Hæstarétti.
Rétt eins og í tilviki Alþingis felst ekki í þeirri sjálfsögðu kröfu, að í Hæstarétti sitji sómasamlegt hlutfall bæði kvenna og karla, nein krafa um að slakað sé á hæfnis- eða gæðakröfum. Þvert á móti má halda því fram að það sé einmitt til þess að búa til betri Hæstarétt, sem skilar betri niðurstöðum og nýtur meira trausts, að horft sé til persónulegra eiginleika eins og kyns, rétt eins og þess hvort fólk hefur t.a.m. samið fleiri eða færri lagafrumvörp."