Áhorf á fréttatíma Stöðvar 2 og RÚV er nú orðið nánast það sama. Fréttatímarnir hafa skipst á að vera með lítillega meira áhorf undanfarnar vikur og munurinn á meðaláhorfi er vart mælanlegar. Þetta eru mikil umskipti frá því sem áður var. Fyrir sjö árum horfðu rúmlega fimmtungi fleiri á fréttir RÚV en fréttir Stöðvar 2. Þetta er meðal þess sem hægt er að lesa út úr mælingum Gallup á áhorfi landsmanna á fréttir.
Áhorf á fréttir Stöðvar 2 og RÚV hefur verið mjög jafnt undanfarnar vikur. Á síðustu fimm vikum sem Gallup hefur mælt hefur bæði meðaláhorf á fréttatímann (fjöldi þeirra sem horfa á meðalmínútu) og uppsafnað áhorf (þeir sem horfa í að minnsta kosti fimm mínútur á fréttatímann samfleytt) tvívegis verið meira á fréttir Stöðvar 2 en á fréttir RÚV. Í þremur þeirra vikna hafa hins vegar fleiri áhorfendur horft á fréttir RÚV. Í síðustu mældu viku, 5. til 11. október, var munurinn á meðaláhorf innan skekkjumarka. Alls horfðu 21,6 prósent áhorfenda á aldrinum 12 til 80 ára á fréttir RÚV en 21,5 prósent á fréttir Stöðvar 2. Uppsafnað áhorf á fréttir RÚV var þó eilitíð meira en á fréttir Stöðvar 2.
Þegar horft er á meðaltal áhorfs á fréttatíma sjónvarpsstöðvanna tveggja yfir síðustu fimm mældu vikur kemur í ljós að meðaláhorf á fréttir RÚV í aldurshópnum 12 til 80 ára er 20,4 prósent en á fréttir Stöðvar 2 20,04 prósent. Uppsafnað áhorf á fréttir RÚV á tímabilinu er 25,46 prósent að meðaltali en á fréttir Stöðvar 2 er það 24,8 prósent.
Vert er að taka fram að sjónvarpsfréttir Stöðvar 2 eru sýndar í opinni dagskrá. Þær standa því öllum sjónvarpsáhorfendum til boða, ekki bara áskrifendum stöðvarinnar.
Fréttastofa Stöðvar 2 komin með svipað áhorf
Meðaláhorf á fréttatíma beggja sjónvarpsstöðvanna sem halda úti slíkum hefur dregist umtalsvert saman á undanförnum árum.
Í september 2008 horfðu að meðaltali 27,8 prósent landsmanna í aldurshópnum 12 til 80 ára á meðalmínútu af fréttir RÚV í vikum 36 til 39. Í fyrra horfðu að meðaltali 22,2 prósent sama hóps á kvöldréttir RÚV í vikum 35 til 38. Í ár er það hlutfall í vikum 37 til 41 20,4 prósent. Áhorfið hefur því dregist saman um tæp 27 prósent á sjö árum og rúm átta prósent frá því því sem það var að meðaltali í september í fyrra. Ef miðað er við uppsafnað áhorf á fréttir RÚV þá hefur það dregist enn meira saman.
Stöð 2 hefur tekist betur að halda á áhorfendum sem horfa á á meðalmínútu af fréttatíma stöðvarinnar en RÚV. Í september 2008 horfið 21,9 prósent landsmanna í aldurshópnum 12 til 80 ára á fréttatíma Stöðvar 2, í fyrra var það hlutfall 21 prósent og í ár er það 20,04 prósent. Þótt áhorfið hafi dregist lítillega saman þá er sá samdráttur mun minni en hjá fréttastofu RÚV. Bilið á milli áhorfs á fréttir Stöðvar 2 og RÚV hefur því nánast horfið á undanförnum árum. Í september 2008 horfðu 21 prósent fleiri á meðalmínútu af fréttum RÚV en Stöðvar 2. Árið 2014 var munurinn orðin 5,4 prósent og síðustu fimm vikur hefur hann vart verið mælanlegur. Nú gerist það reglulega að vikulegt áhorf á fréttir Stöðvar 2 er meira en á fréttir RÚV. Það gerðist síðast í byrjun október.
Auk þess hefur uppsafnað áhorf á fréttir Stöðvar 2 minnkað mun minna en uppsafnað áhorf á fréttir RÚV. Í september 2008 var það 25,6 prósent en er í dag 24,8 prósent.