Finnur Árnason, forstjóri Haga, segir Sigugeir Sindra Sigurgeirsson, formann Bændasamtaka Íslands, hafi hætt að vera talsmaður bænda í deilu þeirra vegna hækkunar á mjólkurvörum og þess í stað gerst talsmaður þess kerfis sem bændurnir starfi innan. Finnur segir að hækkunin hafi að mjög litlu leyti runnið til bænda og að neytendum hafi verið gert að greiða hærra verð sem fari ekki til bænda. "Ætla mætti að ég og formaður bænda ættum samleið í þessu máli. Svo var ekki. Ég kom við viðkvæman blett. Svo viðkvæman að formaður bændasamtakanna hætti að vera talsmaður bænda. Bændur voru skildir eftir útundan og kerfið varið á kostnað bænda og heimila."
Finnur hafnar allri þeirri gagnrýni sem Sigurgeir hefur sett fram á Haga í ritdeilu þeirra undanfarna daga og bendir á að Bændasamtökin fái 500 milljónir króna á ári frá ríkinu, sem sé meira en allir stjórnmálaflokkar samanlagt. Því sé um ríkisstyrktan rógburð að ræða hjá formanni Bændasamtaka Íslands.
Þetta kemur fram í grein sem Finnur skrifar í
Fréttablaðið í dag.
Sagði Finn ekki geta kallað sig talsmann neytenda
Ástæður deilna þeirra Finns og Sigurgeirs er ákvörðun verðlagsnefndar búvöru að hækka verð á mjólkurvörum. Hækkunin rennur að mestu til afurðastöðva í mjólkuriðnaði, ekki bændanna sjálfra. Sérstaklega hefur mikil hækkun á smjöri, sem hækkaði um 11,6 prósent, verið gagnrýnd en Finnur hefur sagt hana óskiljanlega, vanhugsaða og óábyrga. Hún sé rúmlega þreföld hækkun á vísitölu neysluverðs og mun hækkunin því valda verðbólgu. Það muni leiða til þess að neytendur borgi mun hærra verð fyrir smjör auk þess sem verðtryggð lán heimila hækka. Finnur skoraði á stjórnvöld að endurskoða ákvörðunina um hækkunina.
Greinin sem Finnur skrifaði í dag ber yfirskriftina "Kerfið mikilvægara en bændur?". Þar svarar Finnur grein sem Sigurgeir skrifaði í Fréttablaðið á fimmtudag. Í grein sinni benti Sigurgeir á að Hagar hafi hagnast um 3,8 milljarða króna á síðasta rekstrarári og því hafi fyrirtækið svigrúm til þess að setja hækkun á mjólkurvörum ekki út í verðlagið. Sigurgeir sagði Finn einnig mega að spyrja sig að því „hvers vegna smjör hækkaði um 5,8% í smásölu frá því í október 2013 og fram í júlí á þessu ári, en þá var engin hækkun á heildsöluverðinu[…]Hann er því fyrirfram búinn að rukka fyrir helminginn af þeirri 11,6% hækkun sem verður 1. ágúst.“
Finnur geti því ekki kallað sig talsmann neytenda.
Segir að álagning Hafa hafi lækkað
Finnur rekur að landbúnaðarráðherra hafi ekki svarað áskorun sinni. "Forystumenn bænda veittust hins vegar að mér og Högum. Formaðurinn fremstur í flokki og gerir álagningu verslunarinnar að umtalsefni. Hann gefur í skyn að verslanir hafi hækkað álagningu. Hagar eru skráðir í Kauphöllina og er skylt að birta álagningu sína opinberlega. Álagning félagsins hefur lækkað. Nýjustu tölur staðfesta að félagið hefur skilað öllum skattabreytingum og styrkingu krónunnar að fullu til sinna viðskiptavina. Formaðurinn vitnar í skýrslur sem hann segir m.a. "staðfesta að þegar kemur að álagningu og hækkunum til neytenda er verslunin mjög gróf". Þessi svívirðilega aðdróttun á sér hvergi samastað og er ósönn. Engin skýrsla staðfestir að þetta eigi við um Haga."
Hann segir einnig að ástæða þess að álagning á smjöri hafi hækkað hjá verslununum frá árinu 2013 liggja hjá Mjólkursamsölunni (MS), ekki verslununum. "Formaðurinn nefndi ekki að til ársins 2013 bauð MS árlega 75 tonn af smjöri á 20% afslætti til neytenda, 8% af heildarsölu smjörs. Í stað þess að segja ósatt og ásaka verslunina væri rétt að skoða heimahagana. Með því að hætta tilboðum hækkaði heildsöluálagning á smjöri á umræddu tímabili umtalsvert."
Ríkisstyrktur rógburður
Að lokum beinir Finnur sjónum sínum að landbúnaðarkerfinu, sem hann segir að kosti neytendur 16 til 18 milljarða króna á ári. Hann segir bændur bera lítið út býtum í kerfinu, neytendur greiði hátt verð vegna þess og að kostnaður ríkissjóðs sé umtalsverður. Breytingar myndu því bæta bæði hag bænda og neytenda. "Sérhagsmunasamtök formannsins fá 500 milljónir á ári af fjárlögum í hagsmunabaráttu. Hærri upphæð en samanlagðir árlegir ríkisstyrkir til allra stjórnmálaflokka. Sindri vill ekki að ég tali fyrir neytendur. Ég mun tala máli viðskiptavina okkar. Ríkisstyrktur rógburður mun ekki breyta því og áskorun mín til stjórnvalda stendur."