Heilbrigðisþjónusta á Íslandi hefur fallið tímabundið niður um flokk undanfarið ár þar sem heilbrigðiskerfið hefur ekki getað sinnt því veika fólki sem það á að sinna. Þetta sagði Páll Matthíasson, forstjóri Landsspítalans, í Kastljósi í kvöld. Hann sagði að þegar allt starfsfólk sé komið aftur til vinnu sé samt verið að keyra þjónustuna á 100 prósent afköstum. Það þurfi því aukafjármagn til að vinnu niður þann mikla hala aðgerða og myndgreininga sem safnast hefur upp vegna verkfalla starfsmanna á spítalanum.
Í vetur hafa læknar farið í verkfall, hörð barátta farið fram um hvað heilbrigðiskerfið ætti að fá í sinn hlut á fjárlögum og á undanförnum vikum hafa ýmsar stéttir sem starfa innan kerfisins verið í verkfalli. Alþingi samþykkti lög á verkföll hjúkrunarfræðinga og ýmissa hópa innan Bandalags háskólamanna á laugardag.
Páll sagði í Kastljósi að mjög mikilvægt væri að finna varanlega lausn á vanda heilbrigðisþjónustunar. Fjöldi góðs fólks hafi nýverið komið að því að leysa haftamálin. Á sama hátt þurfi að safna saman fjölda góðs fólks til að koma að lausn á vanda heilbrigðisþjónustunnar.
Fjöldauppsagnir
Fyrr í dag var greint á því að 42 hjúkrunarfræðingar hefðu sagt upp störfum í dag í kjölfar þess að Alþingi setti lög á verkfall þeirra. Uppsagnirnar bætast við 21 uppsögn geislafræðinga. Stjórnendur Landsspítalans óttast að enn fleiri séu að íhuga uppsagnir.
Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra sagði á Alþingi í dag að hjúkrunarfræðingar krefjist 40 til 50 prósenta launahækkanna en ríkið hafi boðið þeim um það bil 20 prósenta hækkun á næstu árum.
„Það eru kröfurnar sem menn standa frammi fyrir, að ofan á þær almennu launahækkanir […] verði bætt fyrir gliðnun upp á 14 til 25 prósent á næstu þremur árum,“ sagði Bjarni.