„Sæstrengur er mögulega mjög áhugaverður viðskiptavinur fyrir fyrirtækið. Fyrir liggur að í boði gæti verið umtalsvert hærra orkuverð en nemur meðalverði Landsvirkjunar, þannig að um er að tefla mikla fjárhagslega hagsmuni fyrir fyrirtækið og þjóðina alla. Með tengingu við aðra markaði gæfist okkur kostur á að nýta þá umframorku sem óhjákvæmilega er til staðar í lokuðu raforkukerfi,“ skrifar Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, í grein í Morgunblaðinu í dag.
Þá skrifar Hörður um hvernig eftirspurn eftir endurnýjanlegri orku hefur aukist jafnt og stöðugt, ekki síst eftir að Bandaríkjamenn og Evrópusambandið hófu að leggja áherslu á að auka hlut endurnýjanlegrar orku í orkuframleiðslunni. Þá hafi eftirspurnin sömuleiðis aukist þar sem orkuöryggi sé víða í hættu, til að mynda á Bretlandi, en Bretar hafa lýst yfir eindregnum vilja til að kaupa raforku af Landsvirkjun í gegnum raforkusæstreng sem lagður yrði á milli þjóðanna.
„Bretar hafa mikinn áhuga á því að gera langtíma samninga um orkukaup og breska ríkisstjórnin hefur þegar gert samninga við fjölmarga aðila sem tryggja ákveðið aukagjald fyrir afhendingaröryggi. Þeir líta svo á að um þjóðaröryggi sé að tefla.“
Ýmsum spurningum ósvarað
Þá segir Hörður að við mat á kostum og göllum sæstrengs sé nærtækast að líta til reynslu Norðmanna, sem hafi góða reynslu af tengingu við Holland í gegnum lengsta sæstreng í heimi, NorNed-strenginn, en Norðmenn hafa nú þrjá nýja sæstrengi á teikniborðinu.
„Vissulega er ýmsum spurningum ósvarað þegar litið er til heildaráhrifa þessarar framkvæmdar. Til að mynda þarf að tryggja leiðir til að raforkuverð til heimila hækki ekki umtalsvert og um leið þarf að búa svo um hnútana að samkeppnisumhverfi iðnaðar á Íslandi sé tryggt.“
Forstjóri Landsvirkjunar segir að í lagningu sæstrengs til Bretlands myndi sömuleiðis felast aukið orkuöryggi fyrir Íslands, því hægt sé að flytja raforku í báðar áttir. „Við Íslendingar búum að mínu mati ekki við fullnægjandi orku- öryggi eins og staðan er núna. Eins og okkur er fullljóst getur fyrirvaralaust brostið á með náttúruhamförum eða bilunum, auk þess sem við getum auðveldlega lent í þeirri stöðu að eftirspurn eftir orku verði meiri en framboðið, sér í lagi ef vatnsárið er í lakara lagi.“
Þá undirstrikar Hörður í grein sinni mikilvægi þess að viðskiptalegar forsendur ráði för við ákvarðanatöku Landsvirkjunar. „Það er mikilvægt að hafa í huga að sæstrengur er eins og hver annar viðskiptavinur og hvert annað tækifæri í augum okkar. Við störfum á viðskiptalegum forsendum og ef góðir samningar nást um orkuverð sjáum við fram á stóraukna arðsemi af auðlindinni, í samræmi við það hlutverk Landsvirkjunar að hámarka afrakstur af þeim orkulindum sem fyrirtækinu er trúað fyrir, með sjálfbæra nýtingu, verðmætasköpun og hagkvæmni að leiðarljósi.“