Árni Páll Einarsson, forstjóri Matorku, bregst við umfjöllun um nýlegan fjárfestingasamning fyrirtækisins við íslenska ríkið í erindi sem lagt var fram á fundi atvinnuveganefndar Alþingis í morgun. Þar segir: „Matorka harmar þá umfjöllun sem verið hefur og litast því miður af rangfærslum og neikvæðum áróðri.“
Í skjalinu fullyrðir forstjóri Matorku að fjárfestingasamningurinn, vegna fyrirhugaðrar 3000 tonna fiskeldisstöðvar á Reykjanesi, sé að fullu í samræmi við lög um ívilnanir vegna nýfjárfestinga á Íslandi og aðra fjárfestingasamninga sem gerðir hafa verið á grundvelli laganna. Samningurinn kveði á um allt að 425 milljóna króna heimild til ívilnana á tíu ára tímabili, núvirt til dagsins í dag og engir beinir styrkir séu í ívilnunum.
Keyptu eldisstöð á hrakvirði
Þá gerir forstjóri Matorku sögu landeldisstöðva á Íslandi að umfjöllunarefni í skjalinu, í því skyni að verjast framkominni gagnrýni um að umræddur fjárfestingasamningur raski samkeppni.
„Flestar ef ekki allar landeldisstöðvar á Íslandi hafa farið í gegnum gjaldþrot, sumar oft. Til dæmis Samherjastöð að Stað í Grindavík, Samherjastöð á Vatnsleysu, stöðvar í Öxarfirði og víðar. Í þessu sambandi má nefna að 8,8 milljarðar króna (á verðlagi í dag) voru afskrifaðar af stöðvum á Reykjanesi sem Samherji starfrækir fiskeldi í dag (samkv. bók Halldórs Halldórssonar, Laxaveislan mikla, 1992). Þessir framleiðendur hafa forskot á þá sem byggja fiskeldisstöð frá grunni þar sem stöðvarnar voru keyptar á hrakvirði. Er það ekki samkeppnisröskun?“
Þá skrifar forstjóri Matorku: „Allir núverandi og nýir framleiðendur hafa tækifæri á að sækja um ívilnun fari þeir í nýfjárfestingu - enda er miklu dýrara að byggja nýja eldisstöð en kaupa eldisstöð á hrakvirði úr þrotabúi.“