Jón Sigurðsson, forstjóri Össurar, segir í samtali við New York Times að fjármagnshöftin séu óhugsandi í alþjóðlegum viðskiptaheimi og gangi ekki. „Þetta var eitthvað sem gekk fyrir 30 eða 40 árum [...] Það skilur þau enginn,“ segir Jón, en vitnað er til orða hans í lok greinar á vef útgáfu blaðsins, þar sem ítarlega er fjallað um áform stjórnvalda, um að losa um fjármagnshöft.
Ítarlega hefur verið fjallað um áform stjórnvalda á vef Kjarnans í dag, frá ýmsum hliðum, en áform um losun hafta fela í sér, að kröfuhafar í bú hinna föllnu banka gefa eftir um 900 milljarða króna, á grundvelli skilyrða sem eru til þess fallin að vernda efnahagslegan stöðugleika hér á landi.
Í greininni, sem blaðamennirnir Jenny Anderson og Chad Bray skrifa, er staða Íslands borin saman við ýmis önnur ríki sem hafa glímt við mikla efnahagserfiðleika í kjölfar áfalla á fjármálamörkuðum. Ísland hafi náð vopnum sínum betur en mörg önnur ríki, þar með talið Grikkland, sem hafi ekki búið yfir eigin mynt.
Fjármagnshöftin hafi nú þegar skipt miklu máli fyrir Ísland, og gert landinu kleift að ná vopnum sínum, en það hafi ekki verið áfallalaust. Er þar vitnað til skýrslu Viðskiptaráðs Íslands, en þar var árlegur kostnaður af höftunum metinn 80 milljarðar króna.