„Lykilatriðið er þetta: Það vantar sárlega meiri erlenda fjárfestingu á Íslandi. Hún hefur og á að byggjast upp á okkar styrkleikum, t.d. hvað varðar orkumál, mannauð og fjölbreytni starfa. Það er einnig mikilvægt að hér byggist upp fjölbreyttur iðnaður þannig að atvinnulíf og hagvöxtur byggi á fleiri stoðum. Ísland hefur marga kosti þegar kemur að því að laða erlenda fjárfesta til landsins. En það er líka margt sem vinnur gegn okkur. Eitt af því er að starfsemi alþjóðlegra fyrirtækja á Íslandi sé gerð tortryggileg.“
Þetta segja Almar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðnarins (SI), og Bjarni Gylfason, hagfræðingur samtakanna, í sameiginlegri grein á vef SI. Í greininni kemur fram að nauðsynlegt sé að styrkja samkeppnishæfni Íslands, meðal annars með regluverki sem laðar til sín fyrirtæki sem hér geta sett metnaðarfulla starfsemi.
Vitna þeir meðal annars til umræðu sem spunnist hefur um samkeppnishæfni Íslands, þegar kemur að gagnaverum, í kjölfar þess að Apple ákveðið að reisa gagnvar í Danmörku og á Írlandi, frekar en að horfa hingað til lands.
„Nokkur umræða hefur verið undanfarið um samkeppnisstöðu Íslands hvað varðar uppbyggingu gagnavera, m.a. tengt ákvörðun Apple um að staðsetja gagnaver í Danmörku. Slíkur iðnaður er mikið tækifæri fyrir Ísland enda eru skilyrði hér varðandi orkumál og mannauð hagstæð, en með skýrari skattalöggjöf væri samkeppnishæfnin meiri. Eðlilega sögðu margir að Ísland hefði misst af stórkostlegu tækifæri til að laða hingað erlent fjármagn. En á sama tíma voru sett spurningamerki við alþjóðleg fyrirtæki sem hér starfa og fara eftir lögum og samningum við ríkið. Það er óneitanlega sérstakt,“ segja Almar og Bjarni í grein sinni, og vísa meðal annars í umræðu um hvernig alþjóðleg álfyrirtæki haga sínum málum.
Grein þeirra félaga má lesa hér.