Fullyrðingar Bjarna Ákasonar, framkvæmdastjóra Eplis, um að forsætisráðuneytið hafi misskilið erindi fyrirtækisins varðandi mögulegt gagnaver Apple á Íslandi, í frétt sem birtist á vef Kjarnans fyrir skömmu, virðast ekki eiga við rök að styðjast. Þar fullyrti hann að fyrirtækið hafi einungis viljað kanna áhuga íslenskra stjórnvalda á að hitta Apple með möguleg gagnaver á Íslandi í huga.
Fréttastofa RÚV birti í sjónvarpsfréttum klukkan tíu í gærkvöldi það sem að því er virtist vera erindið sem forsvarsmenn Eplis sendu á forsætisráðherra í mars. Kjarninn skrifaði upp úr því og birti í áðurnefndri frétt.
Bjarni Ákason vildi ekki afhenda Kjarnanum umrætt erindi þegar eftir því var leitað, en forsætisráðuneytið varð við ósk Kjarnans og hefur afhent erindið. Í því er að finna málsgrein sem ekki kom fyrir í bréfinu sem fréttastofa RÚV birti í gærkvöldi, og yfirlýsing forsætisráðuneytisins í dag snérist um.
Hér fyrir neðan má lesa erindi Eplis til forsætisráðuneytisins, sem sent var í mars mánuði síðastliðinn, en undir það ritar Ólafur Sólimann á fyrirtækjasviði Eplis. (Málsgreinin sem ekki var að finna í frétt RÚV er feitletruð).
Góðan dag.
Núna vinnur fyrirtækið Emerald Networks að lagningu sæstrengs sem mun sjá um gagnaflutning á milli Bandaríkjanna við Evrópu með viðkomu hér á landi. Sæstrengurinn sem ber heitið Emerald Express mun verða afkastamesta og hraðasta tengingin á milli N- Ameríku og Evrópu fyrir gagnaflutning.
Þar með öðlast Ísland algjöra sérstöðu varðandi staðsetningum fyrir gagnaver og ekki síst vegna þeirrar grænu orku og framboði hennar sem er í boði hérlendis.
Stórfyrirtæki í tölvu- og tæknigeiranum eru að horfa hingað til lands í auknum mæli í leit að vænlegum kostum fyrir stækkandi gagnaþörf.
Apple Inc. er annt um að vera fyrirtæki sem setur umhverfið í forgang og leggur sig fram við að finna umhverfisvænari leiðir í rekstri. Ísland er því fullkomin samstarfsaðilli fyrir stofnun á gagnaverum með umhverfisvæna orkugjafa.
Um nokkurt skeið höfum við verið að benda forsvarsmönnum Apple á kosti þess að skoða Ísland sem vænlegan kost fyrir gagnaver en einn helsti ókosturinn hefur alltaf verið skortur á sæstreng til N-Ameríku. Nú er orðið ljóst að sú hindrun verður ekki til staðar mikið lengur og höfum við því komist lengra með þessar viðræður.
Okkur langar að leita til forsætisráðherra eftir aðstoð við að koma á fundi við ráðamenn Apple í Bandaríkjunum til að vekja áhuga þeirra á að reisa gagnaver á Íslandi. Við erum í sambandi við fólk í höfuðstöðvum Apple sem er reiðubúið til að koma á fundi ef hæstvirtum forsætisráðherra hugnast að heimsækja höfuðstöðvarnar í Cupertino í Kaliforníu.
Það er augljóst að stóru tæknirisarnir munu koma til með að reisa gagnaver á Íslandi og þar með auka það forskot sem Ísland hefur nú þegar öðlast með framúrskarandi mannauð og þekkingu á þessu sviði.
Hugsanlega getur þessi fundur átt samleið með öðrum erindum forsætisráðherra til Bandaríkjanna. Einnig væri upplagt að taka til umræðu á slíkum fundi mikilvægi þjóðtungunnar í tækniveröldinni fyrir smáþjóðir á borð við Ísland, sérstöðu landsins sem tilraunamarkaðs sem og gríðarlega grósku í hugbúnaðarþróun.
Með von um góðar viðtökur.