Framhaldsskólakennarar í ríkisskólum og Tækniskólanum felldu nýtt vinnumat í atkvæðagreiðslu sem lauk á hádegi í dag. Það þýðir að kjarasamningar framhaldsskólakennara sem gerðir voru síðastliðið vor eru lausir frá og með deginum í dag.
53 prósent kennara í ríkisreknum framhaldsskólum höfnuðu vinnumatinu, en 44 prósent samþykktu það. 83,3 prósent framhaldsskólakennara í Tækniskólanum höfnuðu vinnumatinu í rafrænni kosningu en 16,7 prósent samþykktu það.
Kennarar í Menntaskóla Borgarfjarðar og Verzlunarskóla Íslands samþykktu nýtt vinnumat sem þýðir að samningar þeirra halda. 90,9 prósent kennara í Menntaskóla Borgarfjarðar sögðu já við nýja matinu en í Verzlunarskóla Íslands voru 87,1 prósent kennara fylgjandi vinnumatinu.
„Okkur hefur verið ljóst allan tímann að það yrði naumt á mununum í ríkisskólunum og samkomulag um nýtt vinnumat umdeilt meðal félagsmanna. En lýðræðisleg niðurstaða liggur fyrir og verkefni framundan að ná samningi við okkar viðsemjendur á grundvelli þessarar niðurstöðu,“ segir í tölvupósti sem Guðríður Arnardóttir, formaður félags framhaldsskólakennara sendi kennurum rúmlega þrjú í dag. Hún segir hafa óskað eftir fundi með viðsemjendum strax eftir helgi og kallað saman samninganefnd framhaldsskólakennara til að fara yfir málið.
Vinna við nýja vinnumatið hefur verið í gangi frá því að kjarasamningarnir voru samþykktir í apríl síðastliðnum. Stór hluti samninganna snérist um vinnumatið, sem hefur verið umdeilt meðal kennara frá því að það var kynnt. Í stað þess að fastir tímar séu reiknaðir á bak við hvern áfanga var hver áfangi fyrir sig metinn eftir þáttum eins og fjölda nemenda og umfangi.
Vinnumatið hefði gefið framhaldsskólakennurum 9,3 prósenta taxtahækkun, en þeir sem gagnrýndu vinnumatið bentu á það að vinnukrafa í fullu starfi kennara yrði lækkuð hjá þeim sem teldust búa við vinnuþunga áfanga en hækkuð hjá þeim sem væru taldir með vinnulétta áfanga. Því yrði raunhækkun mjög mismunandi og jafnvel engin hjá sumum.
Grunnskólakennarar samþykktu
Atkvæðagreiðslu um nýtt vinnumat grunnskólakennara lauk einnig í hádeginu í dag. Grunnskólakennarar samþykktu sitt vinnumat sem þýðir að þeirra kjarasamningar halda. Vinnumatið var samþykkt með 57,8 prósentum atkvæða en 39,4 prósent sögðu nei.