Jónas Egilsson, framkvæmdastjóri Frjálsíþróttasambands Íslands (FRÍ) og stjórnarmaður hjá sambandinu, sem varð vitni að því þegar Arnar Pétursson, Íslandsmeistari karla í maraþoni, stytti sér leið til sigurs í Víðavangshlaupi ÍR, segir að hann hafi ekki verið á staðnum í formlegum erindagjörðum og afskipti hans af málinu hefðu bara leitt til hærra flækjustigs.
Þetta kemur fram í tölvupósti sem hann sendi Hirti Stefánssyni, föður Ingvars Hjartarsonar, sem kom annar í mark í hlaupinu og er alls ekki sáttur við framkvæmd hlaupsins og dómgæslu. Hjörtur sendi Jónasi tölvupóst fyrr í dag þar sem hann leitaði viðbragða framkvæmdastjóra FRÍ við málinu. Kjarninn hefur tölvupóstana undir höndum.
Náði óeðlilegu forskoti
Í póstinum sem faðir Ingvars sendi í dag segir: „Þegar myndband að neðan er skoðað sést að annar hlauparinn fylgir ekki þeirri leið sem mótorhjólið fer en það fer á undan hlaupurum til að vísa þeim rétta braut og er því augljóslega kominn útfyrir hlaupabrautina. Með því að fara svona útúr braut og skera innan af beygju verður leiðin sem er hlaupin ekki aðeins styttri heldur líka næst mildari beygja og þá tapast minni hraði. Þetta gefur því hlaupa sem gerir þetta óeðlilegt forskot. Auðvitað er ég ekki hlutlaus í þessu.
https://vimeo.com/126132945
Það sem vekur enn meiri furðu mína er að þeir sem verða vitni að þessu og standa að hlaupinu gera ekki athugasemd við þetta á staðnum. Ég var erlendis og varð því ekki vitni að þessu en ofbauð þetta þegar ég skoða myndbandið. Þetta eiga brautarverðir að sjá og tilkynna inn til hlaupstjóra. Brautarverðir tóku sér stöðu á þessu horni eftir að atvikið átti sér stað. Ef þetta er leyfilegt verður erfitt að halda götuhlaup í framtíðinni þar sem girða þarf af alla hlaupaleiðina svo þetta verði ekki endurtekið,“ skrifar Hjörtur Stefánsson í fyrrgreindum tölvupósti.
„Hefði kallað á meiri flækjur að hafa afskipti“
Þá spyr Hjörtur hvort Jónasi þyki eðlilegt að slíkt sé látið viðgangast, og hvort honum finnist ástæða til að málinu verði fylgt eftir og þá hvernig. Loks spyr Hjörtur: „Fannst þér ekki ástæða til að gera athugasemd við þennan framgangsmáta á staðnum sem framkvæmdastjóri FRÍ?“
Í svarpósti Jónasar við tölvupósti Hjartar segir: „Til að svara síðustu spurningu þinni, þá var ég EKKI á staðnum sem embættismaður hlaupsins, tilnefndur formlega til afskipta af hlaupinu. Því hefði það kallað á meiri flækjur að hafa afskipti sem áhorfandi af hlaupinu, en ekki.“
Hlaupstjórn ÍR óskaði álits FRÍ vegna atviksins í Víðavangshlaupi ÍR, sem var birt í dag. Jónas Egilsson, framkvæmdastjóri FRÍ er titlaður fyrir því. Þar kemur fram að að ekki sé við Arnar Pétursson að sakast í málinu, vegna ófullnægjandi merkinga og dómgæslu á hlaupaleiðinni. Þá harmar ÍR atvikið og lofar úrbótum við framkvæmd götuhlaupa í framtíðinni.