Á sama tíma og starfsmenn Mílu, dótturfélags Símans, eru undanskildir kaupréttarstefnu félagsins vegna sáttar við Samkeppniseftirlitið, þá var framkvæmdastjóri Mílu, Jón Ríkharð Kristjánsson, meðal þeirra stjórnenda sem eignuðust samtals fimm prósenta hlut í Símanum á gengingu 2,5 krónur í ágúst síðastliðnum. Starfsmenn Mílu eru einu starfsmenn innan Símasamstæðunnar sem fá ekki kauprétti fyrir allt að 600 þúsund krónur á ári á verðinu 2,5 krónur á hlut en er þó frjálst að kaupa hlutabréf í Símanum á hlutabréfamarkaði, að því er segir í umfjöllun Fréttablaðsins í dag. Á starfsmannafundi var starfsfólki Mílu sagt að þeim verði bætt það upp að þeir geti ekki eignast kauprétti.
Í frétt Fréttablaðsins segir að sátt Símans við Samkeppniseftirlitið sé ástæða þess að starfsmenn Mílu njóti ekki kauprétta. Sáttin felur í sér kvaðir um aðskilnað Mílu frá Símanum. Vegna þessa sendi eftirlitsnefnd Samkeppniseftirlitsins stjórn Símans bréf og spurði hvort stjórnin teldi kaup Jóns Ríkharðs samræmast sáttinni. Stjórnin sagði það mat stjórnar að kaup hans brytu ekki gegn sáttinni, en í sáttinni er ákvæði sem kveður á um að séu laun og önnur starfskjör starfsmanna Mílu tengd við afkomu skuli tengingin aðeins miðast við afkomu og árangur Mílu.
Í tilkynningu til Kauphallarinnar í gær leiðrétti Síminn upplýsingar sem birtust í skráningarlýsingu. Þar sagði að framkvæmdastjóri Mílu hafi kauprétti að hlutum í Símanum en það er ekki rétt.
Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins gætir talsverðar óánægju meðal starfsmanna Mílu. Haldinn var starfsmannafundur vegna málsins fyrir skömmu þar sem fram kom að til stæði að bæta starfsmönnum þetta upp. Jón Ríkharð segir í samtali við blaðið að ekki sé búið að ákveða með hvaða hætti það verði gert.
Skráð á markað í gær
Viðskipti með hlutabréf í Símanum hófust í Kauphöllinni í gær og var lokagengi bréfanna 3,49 krónur á hlut. Meðalgengi bréfanna í útboði Arion banka í síðustu viku var 3,33 krónur á hlut.
Sala hlutabréfa í Símanum í aðdraganga útboðs hafa verið mikið til umfjöllunar að undanförnu í ljósi þess að stjórnendur fyrirtækisins og meðfjárfestar þeirra fengu að kaupa fimm prósent hlut í Símanum á genginu 2,5 krónur á hlut í ágúst síðastliðnum. Samtals greiddi hópurinn 1.330 milljónir króna fyrir hlutinn.
Auk þess fengu valdir viðskiptavinir Arion banka að kaupa fimm prósent hlut á 2,8 krónur á hlut í september, skömmu áður en hlutafjárútboð Símans fór fram. Sá hópur hefur greitt um 1.490 milljónir króna fyrir sinn hlut. Þessi ráðstöfun hefur verið harðlega gagnrýnd, meðal annars á Alþingi og af stjórnendum lífeyrissjóða sem eiga stóran hlut í Símanum.
Virði hlutar fyrri hópsins hefur því hækkað um 40 prósent miðað við gengi bréfa í Símanum í lok fyrsta viðskiptadags. Hann má ekki selja bréf sín fyrr en í byrjun árs 2017.
Virði hlutar síðari hópsins hefur hækkað um 25 prósent frá því að hann keypti hlutinn. Sá hópur má selja sinn hlut í upphafi árs 2016.
Stjórn Símans sendi frá sér tilkynningu í lok fyrsta viðskiptadags þar sem hún fagnar þeim áfanga sem félagið náði í dag með skráningu í kauphöll.
Þar segir einnig að „Stjórnin kannast ekki við að ólga sé innan hennar vegna framkvæmdar útboðsins, eins og fullyrt hefur verið í fréttum. Stjórnin telur að við þessi tímamót verði fagmennska sem fyrr aðalsmerki félagsins. Síminn er öflugasta fjarskiptafyrirtæki landsins og það endurspeglast í þeim áhuga og trausti sem fjárfestar sýna félaginu.“