Hjörtur Gíslason, framkvæmdastjóri sjávarútvegsfyrirtækisins Ögurvíkur, sagði í viðtali við RÚV í gær að rússneskir aðilar væru byrjaðir að loka á viðskipti með makríl gagnvart íslenskum fyrirtækjum. Það gerðist í gærmorgun, og fengust þá upplýsingar um sterkur orðrómur væri um það á mörkuðum að Rússnesk stjórnvöld ætluðu sér að úttvíkka innflutningsbann sitt á matvælum frá Vesturlöndum enn frekar, og þannig að það næði til Íslands, ekki síst vegna stuðnings Íslands við hertar pólitískar og efnahagslegar aðgerðir gegn Rússlandi, sem rekja má rekja til pólitískrar spennu og aðgerða Rússa í Úkraínu. Hjörtur sagðist þakklátur fyrir að hafa fengið fund með utanríkisráðuneytinu um þetta mál, en óttaðist að það yrði ekki hlustaða nægilega á þessar áhyggjuraddir.
Eins og Kjarninn greindi frá í gær var fundað um þessar áhyggjur í utanríkisráðuneytinu í gær, þar sem hagsmunaaðilar í sjávarútvegi, meðal annars Kolbeinn Árnason, framkvæmdastjóri LÍÚ, komu áhyggjum sínum á framfæri við Gunnar Braga Sveinsson utanríkisráðherra.
Miklir hagsmunir eru í húfi fyrir íslensk sjávarútvegsfyrirtæki, en heildarutanríkisviðskipti við Rússland í fyrra námu ríflega 20 milljörðum króna. Þar af voru um 18 milljarðar vegna viðskipta með makríl, en um 47 prósent af öllum makríl sem veiddur var við Ísland í fyrra fór inn á Rússlandsmarkað.
Hinn 15. október birti Evrópuráðið tilkynningu, um að Ísland, Makedónía, Svartfjallaland, Albanía, Liechtenstein, Noregur, auk Úkraínu og Georgíu,stilltu sér upp með Evrópusambandsríkjum, með ákvörðun frá 23. júní, um hertar viðskiptaþvingangir gegn Rússum. Samkvæmt heimildum Kjarnans fór þetta illa í Rússa sem hafa hug á því að loka á viðskipti við þessi ríki, eða í það minnsta bregðast við með aðgerðum.