Hörður Þórhallsson, sem nýverið var ráðinn framkvæmdastjóri nýstofnaðrar Stjórnstöðvar ferðamála, var formlega ráðinn til starfsins af atvinnuvegaráðuneytinu. Þar er hann með verktakasamning og fær 1.950 þúsund krónur í laun á mánuði. Stjórn Stjórnstöðvarinnar hafi þó tekið ákvörðun um ráðningu hans. Þetta kemur fram í svari ráðuneytisins við fyrirspurn Kjarnans um hver hefði ráðið framkvæmdastjórann.
Staða framkvæmdastjóra Stjórnstöðvar ferðamála var ekki auglýst. Ragnheiður Elín Árnadóttir, ráðherra ferðamála, sagði í viðtali við Spegilinn í gær að nýskipuð stjórn Stjórnstöðvarinnar hafi viljað "þungarvigtarmann" í stöðu framkvæmdastjóra. Þau hafi orðið þess áskynja að Hörður væri á lausu og Ragnheiður Elín sagði að hann hefði uppfyllt þau skilyrði sem sett hefðu verið fyrir starfinu.
Kjarninn greindi frá þvi fyrr í dag að lagt sé upp með að Stjórnstöð ferðamála hafi 140 milljónir króna til ráðstöfunar á ári og mun kostnaður vegna rekstrar hennar skiptast jafnt milli ríkissjóðs og ferðaþjónustunnar.
Kjarninn spurði einnig hvort til stæði að ráða fleira starfsfólk til Starfsstöðvarinnar en Hörð. Í svari ráðuneytisins segir: „Framkvæmdastjóri mun skipuleggja vinnuna í samræmi við áherslur hverju sinni og þá fjármuni sem Stjórnstöðin hefur til umráða. Samningurinn verður gerður í samræmi við lög um opinber innkaup.“
Á að samhæfa aðgerðir og útfæra leiðir
Tilkynnt var um stofnun Stjórnstöðvar ferðamála með viðhafnarkynningu í Hörpu í gær. Hlutverk Stjórnstöðvarinnar verður að samhæfa aðgerðir og útfæra leiðir í samvinnu við opinberar stofnanir og hagsmunaaðila í ferðaþjónustu. Stjórnstöðinni er ætlað að starfa í fimm ár eða til ársloka 2020.
Hún er sett á laggirnar á grundvelli samkomulags milli ríkistjórnarinnar, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Samtaka ferðaþjónustunnar í dag. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra skipaði í gær tíu fulltrúa í stjórn Stjórnstöðvarinnar. Fjórir ráðherrar eiga þar sæti, fjórir fulltrúar frá Samtökum ferðaþjonustunnar og tveir fulltrúar Sambands íslenskra sveitarfélaga. Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra er formaður Stjórnstöðvarinnar.
Þá var tilkynnt um að Hörður hefði verið ráðinn framkvæmdastjóri Stjórnstöðvar ferðamála og að hann muni hefja störf 1. nóvember næstkomandi.
Hörður er með mastersgráðu í rekstrarverkfræði frá háskólanum Karlsruhe í Þýskalandi. Hann hóf starfsferil sinn árið 1996 sem rekstrarráðgjafi hjá VSÓ Ráðgjöf og var árið 2000 ráðinn til lyfjafyrirtækisins Delta, sem síðar varð Actavis. Þar leiddi hann m.a. uppbyggingu Actavís í Asíu, Eyjaálfu, Afríku og á Miðausturlöndum. Síðast gegndi hann stöðu framkvæmdastjóra Actavis yfir Asíu, Eyjaálfu og Afríku með starfsstöð og búsetu í Singapúr.