Framkvæmdir hefjast við Þeistareykjavirkjun Stefnt að framleiðslu inn á raforkukerfið í október 2017 Þeistareykjavirkjun er komin á framkvæmdastig, en undirritun samninga um byggingu stöðvarhúss og veitna í dag markar upphaf þessarar stærstu framkvæmdar Landsvirkjunar síðan Búðarhálsstöð var vígð í fyrravor.
Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, segir þetta vera ánægjulegan áfanga, í fréttatilkynningu.„Við höfum lagt mikla vinnu í undirbúning Þeistareykjavirkjunar í mörg ár og allan þann tíma lagt áherslu á góða umgengni við umhverfi og sátt við samfélagið. Það er gott til þess að vita að innan þriggja ára getum við hafist handa við að framleiða frekari verðmæti fyrir eigendur okkar, íslensku þjóðina, úr þeirri auðlind sem við eigum saman.“
Unnið hefur verið að undirbúningi jarðvarmavirkjunar við Þeistareyki til fjölda ára, en gert er ráð fyrir að þessi 45 MW virkjunaráfangi verði fyrsta skrefið í varfærinni uppbyggingu sjálfbærrar jarðvarmavinnslu á svæðinu. Stefnt er að því að virkjunin hefji rekstur haustið 2017.
Boraðar hafa verið átta vinnsluholur, sem skila gufu sem jafngildir um 50 MW rafafli, eða einni aflvél. Undirbúningur miðast við sérstöðu Þeistareykja. Þeistareykjajörð er gömul landnámsjörð sem liggur suðaustur af Húsavík; frá Höfuðreiðarmúla í norðri og suður undir Kvíhólafjöll og frá Lambafjöllum í vestri að Ketilfjalli og Bæjarfjalli í austri. Jörðin er nú í eigu Þingeyjarsveitar.
Allur undirbúningur Þeistareykjavirkjunar hefur tekið mið af sérstöðu svæðisins, sem er nær ósnortið ef frá eru taldar búsetuminjar og ummerki um brennisteinsnám á öldum áður. Í skipulagsáætlunum hafa því verið afmörkuð verndarsvæði vegna náttúru- og fornminja. „Við hönnun virkjunar hefur verið hugað að áhrifum á landslag og ásýnd svæðisins. Framkvæmdir hafa því verið skipulagðar á þann hátt að landmótun og frágangur fer fram samhliða uppbyggingu,“ segir í tilkynningu frá Landsvirkjun.
Hátt í 200 starfsmenn verða við vinnu þegar mest verður, en heildarfjárhæð samninganna við LNS Sögu, um byggingu stöðvarhúss og veitna, nemur um 6,6 milljörðum króna, en áætlanir gera ráð fyrir að heildarkostnaður við fyrsta áfanga virkjunarinnar nemi á bilinu 20 til 24 milljörðum króna. Þegar mest verður munu hátt í 200 starfsmenn vera við vinnu á svæðinu á framkvæmdatímabilinu, segir í tilkynningu frá Landsvirkjun.
Sjá má frekar upplýsingar um málið hér meðfylgjandi. Blaðamannafundur_THR