„Seinustu daga hafa framlögin streymt inn. Við hjá UNICEF á Íslandi erum virkilega snortin yfir hluttekningunni sem við finnum hér heima,“ segir Bergsteinn Jónsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi, um neyðarsöfnun UNICEF fyrir börn í Sýrlandi.
Söfnunin hefur staðið yfir frá haustinu 2012. Fjöldi fólks hefur lagt henni lið frá því um helgina, en mikil vakning hefur verið, meðal annars á samfélagsmiðlum, um stöðu flóttafólks frá Sýrlandi.
„Ástandið vegna stríðsins í Sýrlandi er skelfilegt og því er ánægjulegt að sjá viðbrögð fólks hér á landi,“ segir Bergsteinn í fréttatilkynningu. Sigríður Víðis Jónsdóttir, kynningarstjóri og upplýsingafulltrúi UNICEF, segir í samtali við Kjarnann að yfir tvær milljónir króna hafi safnast um helgina og í dag.
Þá hafa 500 manns skráð sig sem sjálfboðaliða hjá Rauða krossinum á síðasta sólarhring. Aldrei hafa jafnmargir sjálfboðaliðar bæst við á eins stuttum tíma, að sögn Björns Teitssonar, upplýsingafulltrúa Rauða krossins.
Tíu þúsund vilja hjálpa flóttamönnum
Tíu þúsund Íslendingar hafa skráð sig á Facebook-síðuna Kæra Eygló Harðar - Sýrland kallar frá því að síðan var stofnuð um helgina. Þar lýsir fólk því yfir hvað það er reiðubúið að gera til þess að aðstoða flóttafólk sem hingað gæti komið, og hvetur stjórnvöld til þess að taka á móti mun fleiri flóttamönnum en þeim 50 kvótaflóttamönnum sem búið er að samþykkja að komi hingað til lands.
Þar hefur fólki verið bent á bæði söfnun UNICEF og að skrá sig sem sjálfboðaliða hjá Rauða krossinum, auk þess sem búið er að útbúa skjal til að skipuleggja hjálp.