Magnús Karl Magnússon, prófessor í lyfja- og eiturefnafræði og forseti Læknadeildar Háskóla Íslands, segir nýja útreikninga Hagstofunar um heildarútgjöld til rannsókna, nýsköpunar og þróunar, benda til að framlög til málaflokksins hafi verið gróflega ofmetin undanfarin ár. Þetta kemur fram í aðsendri grein Magnúsar til Kjarnans.
Heildarútgjöld til rannsókna- og þróunarstarfs numu tæplega 35,4 milljörðum króna á síðasta ári, eða sem nemur 1,88 prósentum af landsframleiðslu Íslands það ár, samkvæmt frétt sem Hafstofa Íslands birti í síðustu viku. Heildarútgjöld fyrirtækja voru rúmir 18,5 milljarðar, háskóla röskir 11,6 milljarðar og annarra opinberra stofnana og sjálfseignarstofnana rúmir 5,2 milljarðar króna.
Fram til þessa hefur útreikningur á framlögum til málaflokksins verið á forræði Rannsóknarmiðstöðvar Íslands (RANNÍS), þar sem opinberar tölur hafa sýnt að 2,5 til þremur prósentum af landsframleiðslunni hafi verið varið til rannsókna- og þróunarstarfs frá árinu 2000.
„Viðmið margra þjóða er að ná 3 prósenta markinu og við höfum því, samkvæmt opinberum tölum verið aðeins herslumun frá því viðmiði. Vísinda- og tækniráð setti sér það sem markmið fyrir árið 2016 og það var því samkvæmt opinberum gögnum raunhæft að við gætum náð þessu mikilvæga viðmiði,“ skrifar Magnús Karl í áðurnefndri grein í Kjarnanum.
Vitlaust reiknað í áratugi
Hagstofa Íslands tók við útreikningum á framlögum til geirans á síðasta ári, en framkvæmd stofnunarinnar við útreikningana nú fylgir aðferðarfræði OECD, þar sem miðað er við að skila upplýsingum til alþjóðastofnana sem séu samanburðarhæfar við niðurstöður annarra landa.
Magnús Karl veltir fyrir sér ástæðu þess að tölur Hagstofunar séu þriðjungi lægri en opinberar tölur RANNÍS fram til þessa, og hvort skýra megi þær með hruni sem mögulega hafi orðið í geiranum.
„Skýringanna er sennilega ekki leita í hruni. Líklegra er að við höfum reiknað vitlaust síðustu áratugi. Nýlega var tekin sú ákvörðun að flytja þessa mikilvægu en flóknu útreikninga frá Rannís til Hagstofunnar enda skiptir meginmáli að við getum borið okkur saman við nágrannalöndin en í flestum tilvikum eru þessir útreikningar í höndum hagstofa viðkomandi landa. Aðferðir eru flóknar og niðurstaðan hefur afgerandi áhrif á ákvarðanir stjórnvalda og atvinnulífs í vísinda- og nýsköpunarmálum.“
Graf sem Magnús Karl birti með grein sinni á Kjarnanum.
Yfir 100 milljarða króna skekkja
Á ofangreindu línuriti sýnir bláa línan þróun á framlögum til rannsóknar og þróunar sem hlutfall af vergri landsframleiðslu samkvæmt opinberum tölum undanfarin ár. Rauða línan sýnir framlög til geirans, þegar leiðrétt hefur verið samkvæmt aðferðarfræðinni sem Hagstofan styðst nú við við útreikninganna.
Magnús Karl segir að miðað við ofangreint, megi áætla að útreikningar síðustu áratuga hafi verið ríflega þriðjungi of háir. „Hér er um að ræða 10-15 milljarða skekkju á ári eða vel yfir hundrað milljarða síðasta áratug. Það munar um minna.“
Að endingu segir Magnús Karl að tölurnar setji stefnumótun í málaflokknum í uppnám. „Við erum ekki að að fjárfesta til framtíðar eins og við héldum að við værum að gera. Við þurfum að snúa við blaðinu, það þolir ekki bið.“