Fylgi Framsóknar mældist 11,3 prósent í nýlegri könnun MMR á fylgi stjórnmálaflokkanna og jókst frá síðustu könnun, þegar fylgi flokksins mældist 8,6 prósent. Píratar eru sem fyrr vinsælasti stjórnmálaflokkurinn, fylgi þeirra mældist 34,5 prósent samanborið við 32,7 prósent áður. Könnunin var gerð dagana 27. maí til 2. júní og eru niðurstöðurnar birtar á vef MMR þann 16. júní síðastliðinn. Stuðningur við ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknar minnkar og mældist 29,4 prósent samanborið við 31,4 prósent í síðustu mælingu.
Fylgi Sjálfstæðisflokksins mældist 21,2 prósent, samanborið við 23,1 prósent fylgi í fyrri könnun. Fylgi flokksins hefur ekki verið lægra síðan í apríl 2013, skömmu fyrir Alþingiskosningar. Fylgi flokksins þá mældist það minnsta síðan mælingar MMR hófust.
Fylgi Samfylkingarinnar mældist 11,8 prósent borið saman við 13,1 prósent áður . Fylgi Vinstri-grænna mældist nú 11,1 prósent, borið saman við 10,4 prósent í síðustu könnun og fylgi Bjartrar framtíðar mældist nú 6,7 prósent, borið saman við 6,3 prósent í síðustu könnun. Fylgi annarra flokka mældist undir tvö prósent.