Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina, segir það óttækt að Reykavíkurborg byggi tillögu að kaupum á 500 félagslegum leiguíbúðum á hugmyndum verkefnastjórnar um framtíðarskipan húsnæðismála, sem Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, skipaði. Hún greiddi því ein borgarfulltrúa atkvæði gegn tillögunni þegar hún var lögð fram í borgarráði í gær. Borgarfulltrúi Framsóknar er því ósammála tillögu sem byggja á hugmyndum sem flokkssystir hennar og ríkisstjórn flokks hennar bera á ábyrgð á að móta.
Sérstök aðgerðaráætlun ríkisstjórnarinnar
Í borgarráði í gær lagði Dagur B. Eggertsson borgarstjóri fram tillögu um að áætlun um uppbyggingu 500 félagslegra leiguíbúða, á næstu fimm árum í Reykjavík, yrði samþykkt. Áætlunin byggir á niðurstöðu verkefnastjórnar um framtíðarskipan félagslegra húsnæðismála, sem skilaði af sér skýrslu í maí 2014. Verkefnastjórnin var skipuð af Eygló Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra. Eygló er ráðherra Framsóknarflokksins og áætlun verkefnastjórnarinnar er liður í sérstakri aðgerðaráætlun ríkisstjórnar Íslands, sem lýtur forsæti Framsóknarflokksins, sem er ætlað að „taka á skuldavanda heimila á Íslandi og til að tryggja stöðugleik og gagnsæi á húsnæðislánamarkaði til framtíðar“.
Eygló Harðardóttir,
félags- og húsnæðismálaráðherra.
Í skýrslu verkefnastjórnarinnar, sem Eygló skipaði, var meðal annars lagt til að „í stað niðurgreiddra vaxta komi til 25% stofnframlag til félagslegs húsnæðis. Að auki komi a.m.k. 10% stofnframlag frá sveitarfélögum. Með þessum hætti er talið að leiguverð í félagslegu húsnæði geti lækkað um 10–20%.“
Í áætluninni sem Dagur lagði fram í borgarráði í gær er gert ráð fyrir að Reykjavíkurborg leggi til 10 prósent eigið fé í kaup á íbúðunum 500 og að ríkið leggi til 20 prósent. Sex borgarfulltrúar Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna, Pírata og Sjálfstæðisflokksins samþykktu áætlunina.
Framsókn á móti Framsókn
Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina, sem situr í borgarráði greiddi ein atkvæði á móti þessari tillögu og lagði fram bókun þar sem segir: „Fögnum við því að Reykjavíkurborg sé búin að gera tillögu um uppbyggingu félagslegs húsnæðis og styðjum við hana sem slíka, en vegna aðferðarfræðinnar sem fram kemur í greinargerð getum við ekki samþykkt tillöguna eins og hún er sett fram, með eftirfarandi rökstuðningi: Ótækt er að Reykjavíkurborg byggi tillögu sína um kaup á 500 félagslegum leiguíbúðum næstu 5 árin á þeirri forsendu að Reykjavíkurborg leggi til 10% eigið fé í kaupin og ríkið leggi til 20% eigið fé í kaupin, í samræmi við hugmyndir um framtíðarskipan húsnæðismála. Verður að gera þær kröfu til stjórnvalds að það fari eftir gildandi lögum og reglum í verkefnum og áætlanagerð sinni, eins og lög, faglegt verklag og 2. gr. siðareglna kjörinna fulltrúa Reykjavíkurborgar gerir ráð fyrir, en þar segir „Í störfum sínum er kjörinn fulltrúi bundinn af lögum, reglum og samþykktum Reykjavíkurborgar“ og „Kjörnir fulltrúar hafa ávallt í heiðri grundvallarreglur góðrar stjórnsýslu í störfum sínum“. Getur Reykjavíkurborg ekki ákveðið hvernig fjárlög verða næstu 5 árin og byggt stefnu sína á því og er því stefnan því miðuð við framangreint ómöguleg í framkvæmd. Við gerum þær kröfu að við áætlanagerð og tillögur sé farið að gildandi lögum og reglum við yfirlýsingar og stefnumörkun Reykjavíkurborgar. Um 850 manns eru á biðlista eftir félagslegum leiguíbúðum þar af um 550 manns í brýnni þörf. Tillagan um fjölgun almennra félagslegra leiguíbúða um 500 á næstu 5 árum, sem byggir ekki á gildandi lögum eða heimild í fjárlögum og er því ómöguleg í framkvæmd per se, dugar ekki til að mæta þeirri þörf sem er til staðar í dag. Ljóst er að þarfagreining velferðarsviðs, sem tillagan byggist á, á ekki við rök að styðjast.“
Þar með er fulltrúi Framsóknar og flugvallarvina í borgarráði ósammála því að uppbygging á félagslegum leiguíbúðum í Reykjavík sé í samræmi við hugmyndir um framtíðarskipan húsnæðismála, sem ráðherra Framsóknarflokksins ber ábyrgð á og ríkisstjórnin stendur á bakvið.