Framsóknarflokkurinn myndi fá 13 prósent atkvæða ef kosið yrði til Alþingis í dag. Það er um tveimur prósentustigum meira en hann fékk í könnun sem var birt í byrjun desember. Þetta kemur fram í nýrri könnun Capacent sem RÚV greindi frá. Það er töluvert betri niðurstaða fyrir flokkinn en könnun MMR, sem birt var í síðustu viku, sýndi. Samkvæmt henni var fylgi Framsóknarflokksins einungis 9,4 prósent. Flokkurinn er enn langt frá kjörfylgi sínu, en hann fékk 24,4 prósent atkvæða í þingkosningunum árið 2013.
Sjálfstæðisflokkurinn er sem fyrr stærsti flokkur landsins samkvæmt könnun Capacent. 27 prósent aðspurðra sögðust myndu kjósa flokkinn ef gengið yrði til kosninga í dag. Samfylkingin er næst stærsti flokkurinn með 18 prósent fylgi og Björt framtíð nýtur jafn mikillar hylli og Framsóknarflokkurinn með 13 prósent fylgi.
Athygli vekur að fleiri myndu kjósa Pírata (12 prósent) í dag en Vinstri græna (11 prósent). Fylgi við Pírata hefur aldrei mælst hærra í könnunum Capacent.Flokkurinn fékk rétt rúmlega fimm prósent atkvæða í síðustu kosningum.