Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra er furðu lostinn vegna mikillar fylgisaukningar Pírata á Íslandi. Píratar, sem eru minnsti flokkurinn á Alþingi eftir að hafa hlotið 5,1 prósent atkvæða í síðustu Alþingiskosningum, mælast nú stærsti stjórnmálaflokkur landsins. Í skoðanakönnun MMR mældist fylgi flokksins 23,9 prósent og í könnun Fréttablaðsins mældist stuðningurinn 29,1 prósent.
Aðspurður af fréttastofu RÚV, um hvaða skilaboð kjósendur séu að senda ríkisstjórninni með þessum mikla stuðningi við Pírata svaraði hann: „Þetta óneitanlega kom á óvart og er reyndar ekki í fyrsta skipti sem koma svona sérstakar kannanir þar sem einn nýr flokkur ef svo má segja, nær óvænt mjög miklu flugi. Við höfum séð þetta gerast alloft áður á liðnum árum og áratugum. Þetta eru kannski fyrst og fremst skilaboð um það að fólk er orðið óþreyjufullt að sjá árangurinn af starfi stjórnmálamanna en sá árangur er þó byrjaður að skila sér, samkvæmt öllum mælikvörðum.“
Augljóslega er þessi mælanlegi árangur ríkisstjórnarinnar, þar sem Framsóknarflokkurinn er í forystu, ekki að skila sér í auknu fylgi til Framsóknarflokksins. Flokkurinn mælist nú með 11 prósenta fylgi samkvæmt nýjustu könnun Gallup.
Pæling dagsins: Fyrst að kjósendur taka augljóslega ekki eftir þessum „góða“ árangri, getur þá verið að vandamálið sé Framsóknarflokkurinn sjálfur? Getur verið að oft og tíðum hrokafull tilsvör forystumanna flokksins, þegar á þá er deilt, fari í pirrurnar á fólki og geri það andsnúið flokknum? Kann forysta flokksins ef til vill ekki að tala til kjósenda? Er það kannski málið?
Pæling dagsins er hluti af daglegum fréttapósti Kjarnans, þar sem farið er yfir það helsta í innlendum og erlendum fréttum. Í pælingu dagsins er athyglisverðum hlutum velt upp.
Fréttapóstur Kjarnans kemur í pósthólfið þitt á hverjum morgni.