„Framsóknarflokkurinn vill að verðtrygging á nýjum neytendalánum verði afnumin.“ Svo segir ályktun flokksþing Framsóknarmanna um efnahagsmál, fjármál ríkisins og skattamál. Eins og kunnugt er var afnám verðtryggingarinnar eitt af kosningamálum Framsóknarflokksins fyrir síðustu Alþingiskosningar, og hér er því verið að árétta enn frekar vilja flokksins í þeim efnum.
Í ályktuninni segir: „Skipta verður ábyrgð jafnar á milli lánveitenda og lántaka. [...] Með neytendalánum er hér átt við lán sem neytendur taka í verslunum, þjónustufyrirtækum og fjármálafyrirtækjum, s.s. húsnæðislán, lán til bifreiðakaupa og greiðsludreifingarlán svo eitthvað sé nefnt. Ekki er lagt til að vísitölutenging annarra lána, s.s. til fjárfesta, verði afnumin enda eru slíkar tengingar vel þekktar víða um heim.“
Í áðurnefndri ályktun flokksþings Framsóknarmanna fagnar Framsóknarflokkurinn þeim umbótum sem orðið hafa á skattkerfinu á tímabilinu. „Flokksþingið vill að haldið verði áfram á þeirri braut að einfalda skattkerfið og persónuafsláttur hækkaður til fyrra horfs að raungildi. Þó er rétt að árétta að stigið verði varlega til jarðar með frekari breytingar á virðisaukaskattskerfinu.“
Þá fagnar Framsóknarflokkurinn sömuleiðis nýlegri skýrslu Frosta Sigurjónssonar, þingmanns flokksins, um þjóðpeningakerfi og hvetur til þess að ráðist verði í óháða fýsileikakönnun um möguleika þess að taka upp slíkt kerfi hér á landi. Þá verði sömuleiðis fleiri möguleikar skoðaðir til þess að hemja aukningu peningamangs í umferð á Íslandi, að því er fram kemur í ályktun Framsóknarmanna um efnahagsmál, fjármál ríkisins og skattamál.
Sigurður Ingi Jóhannsson var endurkjörinn varaformaður Framsóknarflokksins á flokksþinginu í dag, og þá hlaut Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra, jafnréttisviðurkenningu flokksins. Flokksþingi Framsóknarmanna var frestað núna klukkan 17:30, samkvæmt áætlun, og verður framhaldið á morgun.