Rétt tæplega 35 prósent aðspurðra í nýrri könnun MMR fannst áramótaskaupið gott. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá MMR, en fyrirtækið kannaði á dögunum hvað almenningi fannst um skaupið. Alls tóku 993 þátt í könnuninni, 96,4 prósent þeirra tóku afstöðu, en 45,4 prósent aðspurðra fannst síðasta áramótaskaup slakt.
Vinsældir síðasta áramótaskaups voru svipaðar og skaupsins sem sýnt var í lok árs 2012, en þá fannst 33,2 prósentum aðspurðra skaupið hafa verið gott. Hins vegar má geta þess að ríflega 81 prósent aðspurðra fannst skaupið árið 2013 vera gott.
Samkvæmt niðurstöðum MMR féll skaupið frekar í kramið hjá konum en körlum, en 42 prósent kvenna fannst skaupið gott miðað við 28,6 prósent karla. Þá fannst flestum í aldursflokknum 50 til 67 ára skaupið gott, eða 39,1 prósent, en minnst var hrifningin hjá 68 ára og eldri, eða 26,9 prósent.
Tæplega 71 prósent þeirra sem styðja ríkisstjórnina fannst skaupið slakt, og einungis 10,4 prósent Framsóknarmanna fannst skaupið gott. Framsóknarfólk var lang óánægðast með skaupið, en 75,6 prósent þeirra fannst skaupið slakt. Þeir sem voru ánægðastir með skaupið voru stuðningsmenn Vinstri grænna, en 66,4 prósent þeirra fannst skaupið gott.
Fyrir áhugasama er hægt að horfa á Áramótaskaupið 2014 hér.