Framtakssjóður Íslands segir að ákvörðun um sölu á Promens markast af því að framtíðarmöguleikar fyrirtækisins snúist um að vaxa með viðskiptavinum sínum á alþjóðamörkuðum og efla alþjóðlega samkeppnishæfni þess. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Framtakssjóðnum vegna umræðu um sölu á fyrirtækinu og umsókn þess fyrir undaþágu frá lögbundnum fjármagnshöftum.
Guðni Ágústsson, fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins og ráðherra, gagnrýndi sjóðinn nokkuð harkalega í grein í Morgunblaðinu í dag og sagði það skjóta skökku við að sjóðurinn væri að selja fyrirtæki úr landi.
Í yfirlýsingu frá sjóðnum er salan útskýrð með því, að eftir yfirlegu hefði það verið talið best fyrir fyrirtækið að vaxa á alþjóðlegum mörkuðum með erlenda eigendur.
„Veruleiki þess iðnaðar sem Promens starfar við er að samþjöppun er að verða í greininni. Til að verða ekki undir í samkeppni var rík þörf fyrir Promens að vaxa með viðskiptavinum sínum, annað hvort með kaupum á fyrirtækjum eða með því að reisa nýjar verksmiðjur. Lykilviðskiptavinir Promens óskuðu eftir samstarfi á næstu árum sem kallaði á mikla fjárfestingu. Til þess þurfti félagið bæði að auka hlutafé og fá aukna lánsfjármögnun. Eingöngu var sótt um hefðbundna undanþágu frá gjaldeyrishöftum vegna hlutafjárframlags, en félagið hafði tryggt sér lánsfjármögnun frá erlendum viðskiptabönkum sínum á móti. Þeirri undanþágubeiðni var hafnað. Fram að því var það skýr stefna hluthafa að setja félagið á markað á Íslandi, en þegar höfðu nokkrir erlendir aðilar sýnt félaginu áhuga. Aðilum var gerð grein fyrir því að seljendur legðu mikið upp úr því að tryggja framleiðslustarfsemi félagsins á Íslandi. Tilboðsgjafi í Promens hefur gengist inn á slík skilyrði enda framleiðslustarfsemin vel rekin,“ segir í yfirlýsingu frá sjóðnum.
Fyrirtækið RPC, sem er skráð á markað í London, hefur þegar gengið frá kaupum á Promens, en með fyrirvara um samþykki franskra samkeppnisyfirvalda. Þá hefur verið lagt upp með að starfsemi fyrirtækisins hér á landi haldist óbreytt, enda hefur reksturinn gengið vel.
Yfirlýsing frá Framtakssjóði Íslands vegna umræðu undanfarinna daga
Vegna fjölmiðlaumræðu í kjölfar frétta af sölu Promens er rétt að halda til haga nokkrum staðreyndum um Framtakssjóðinn og fyrirtæki í hans eigu:
Framtakssjóður Íslands var stofnaður 2009 og hefur síðan þá komið að endurskipulagningu nokkurra fyrirtækja sem áttu það sameiginlegt að tilverugrundvelli þeirra var ógnað í kjölfar fjármála- og gjaldeyriskreppu sem skall á haustið 2008. Eigendur sjóðsins eru að langstærstum hluta lífeyrissjóðir landsmanna, en einnig eru Landsbankinn hf og VÍS hluthafar í sjóðnum. Frá stofnun til dagsins í dag hefur sjóðurinn fjárfest í níu fyrirtækjum og þegar selt úr eigu sinni fimm þeirra. Árangur sjóðsins hefur verið afar góður sem er ánægjulegt og mun skila sér sjóðfélaga lífeyrissjóðanna.
Framtakssjóður Íslands hefur alla tíð unnið að heilindum að því að hámarka verðmæti eigna sinna íslenskum almenningi til hagsbóta. Sjóðurinn hefur ávallt haft í huga hverjir eru eigendur hans og horft til samfélagsábyrgðar samhliða því að gæta ýtrustu viðskiptahagsmuna.
Framtakssjóður Íslands á tæplega helming hlutafjár í Promens sem er fjölþjóðlegt fyrirtæki með megnið af sinni framleiðslu utan Íslands. Hjá félaginu starfa um 3.800 manns þar af um 100 á Íslandi. Þegar sjóðurinn kom að félaginu árið 2011 voru margir sem höfðu efasemdir um að rétt væri að taka áhættu af áframhaldandi rekstri þess. Framtakssjóður Íslands, Landsbankinn og stjórnendur félagsins tóku höndum saman um að styrkja og efla félagið enn frekar samhliða endurfjármögnun hjá erlendum bönkum sem kallaði á þeim tíma á aukið eigið fé. Til þess nutu þessir aðilar skilnings Seðlabanka Íslands.
Nú liggur fyrir bindandi tilboð frá RPC í félagið, en enn er útistandandi m.a. fyrirvari um samþykki franskra samkeppnisyfirvalda. RPC sem er alþjóðlegt fyrirtæki í plastiðnaði, er vel rekið og stöndugt félag og skráð í kauphöllinni í London.
Veruleiki þess iðnaðar sem Promens starfar við er að samþjöppun er að verða í greininni. Til að verða ekki undir í samkeppni var rík þörf fyrir Promens að vaxa með viðskiptavinum sínum, annað hvort með kaupum á fyrirtækjum eða með því að reisa nýjar verksmiðjur. Lykilviðskiptavinir Promens óskuðu eftir samstarfi á næstu árum sem kallaði á mikla fjárfestingu. Til þess þurfti félagið bæði að auka hlutafé og fá aukna lánsfjármögnun. Eingöngu var sótt um hefðbundna undanþágu frá gjaldeyrishöftum vegna hlutafjárframlags, en félagið hafði tryggt sér lánsfjármögnun frá erlendum viðskiptabönkum sínum á móti. Þeirri undanþágubeiðni var hafnað.
Fram að því var það skýr stefna hluthafa að setja félagið á markað á Íslandi, en þegar höfðu nokkrir erlendir aðilar sýnt félaginu áhuga. Aðilum var gerð grein fyrir því að seljendur legðu mikið upp úr því að tryggja framleiðslustarfsemi félagsins á Íslandi. Tilboðsgjafi í Promens hefur gengist inn á slík skilyrði enda framleiðslustarfsemin vel rekin.
Framtakssjóður íslands hefur skilning á þeim vanda sem Seðlabankinn og ríkisstjórnin glímir við í efnahagsmálum. Sjóðurinn hefur átt gott samstarf við Seðlabankann í því ástandi sem ríkir og ekki kveinkað sér undan ákvörðunum sem leiða af þeim vanda. Sjóðurinn stendur hins vegar frammi fyrir ákveðnum efnahagslegum veruleika og það væri óábyrgt af hans hálfu að taka aðrar ákvarðanir en þær sem sjóðurinn telur tryggja best hagsmuni eigenda sinna sem er á endanum almenningur á Íslandi.
Meðal þess sem dregið hefur verið inn í umræðuna er vörumerkið Icelandic Seafood. Þrálátur misskilningur hefur verið um vörumerkið Icelandic Seafood og eignarhald þess. Skýrt er að vörumerkið er og hefur ávallt verið í eigu Icelandic Group. Engar breytingar eru fyrirhugaðar á eignarhaldi þess. Afnotaréttur vörumerkisins var leigður með ströngum skilyrðum til ársins 2018 í kjölfar sölu á verksmiðju félagsins í Bandaríkjunum. Kaupandinn, Highliner Foods, selur áfram íslenskan fisk undir merkjum Icelandic Seafood og hefur síður en svo dregið úr sölu íslenskra sjávarafurða í Bandaríkjunum undir merkjum Icelandic Seafood. Heildarsala Highliner Foods undir merkjum Icelandic Seafood í Bandaríkjunum á öllum afurðum var u.þ.b. $160 milljónir eða
kr. 21 milljarður árið 2014. Þegar Framtakssjóður Íslands eignaðist Icelandic Group var staða félagsins erfið, en eftir fjárhagslega endurskipulagningu sem fól m.a. í sér sölu verksmiðjunnar í Bandaríkjunum var Icelandic Group vel fjármagnað og óvissu um langtíma rekstrarhæfi þess eytt.