Framtíðin er nýr námslánasjóður sem hóf göngu sína í dag og veitir háskólanemum bæði framfærslu- og skólagjaldalán. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Framtíðinni. Framtíðin er fjármögnuð í gegnum skuldabréfasjóði sem eru í stýringu hjá fjármálafyrirtækinu GAMMA. Að baki skuldabréfasjóðunum standa stofnanafjárfestar eins og lífeyrissjóðir og tryggingafélög, eignastýringar og almennir fjárfestar.
Hámarkslán er þrettán milljónir, en lágmarkið 500 þúsund, en og endurgreiðslutíminn er tólf ár. Byrjað er að greiða lánin til baka einu ári eftir að námi er lokið.
Allir námsmenn sem ætla í háskólanám á Íslandi eða erlendis geta sótt um námslán hjá Framtíðinni. Einnig er starfsnám, endurmenntun og nám með vinnu á Íslandi lánshæft, að því er fram kemur í tilkynningu.
Framtíðin mun bjóða upp á tvær tegundir námslána, annars vegar óverðtryggð lán með breytilegum vöxtum og hins vegar verðtryggð lán með föstum vöxtum. Sjóðurinn áætlar að veita nokkur hundruð námsmönnum lán á ári.
Vaxtakjörin eru eftirfarandi, samkvæmt því sem fram kemur á vef sjóðsins.
Vextir | Í námi | Eftir námslok |
---|---|---|
Óverðtryggðir breytilegir vextir | 9,75% | 8,75% |
Verðtryggðir fastir vextir | 7,45% | 6,45% |
Þetta eru sambærilegir vextir og bjóðast viðskiptavinum bankanna til kaupa á bílum, en hámarksendurgreiðslutími þeirra lána er sjö ár.
Námsmenn sem eru með lán hjá LÍN, sem lánar námsmönnum verðtryggt til lengri tíma með niðurgreiddum kjörum af ríkissjóði, geta einnig sótt um lán hjá Framtíðinni. „Hér er um viðbótarvalkost að ræða fyrir þá sem þurfa að fjármagna kostnaðarsamt nám, til dæmis erlendis, eða hafa hug á að mennta sig frekar eftir nokkur ár á vinnumarkaði eða meðfram vinnu,“ segir í tilkynningu frá sjóðnum.
Hlíf Sturludóttir, stjórnarformaður Framtíðarinnar, segir að stofnun lánasjóðsins fjölgi möguleikum námsmanna til að kosta nám sitt, hvort sem um er að ræða skjólagjöld eða hærri framfærslu meðan á námi stendur. „Það er til hagsbóta fyrir einstaklingana sjálfa að fjárfesta í menntun og um leið samfélagið allt enda eykst samkeppnishæfni Íslands með aukinni menntun,“ segir hún í tilkynningu.