Fréttamaðurinn Björn Malmquist hefur ráðið sig tímabundið til starfa hjá Atlantshafsbandalaginu (NATO), og heldur til Afganistan í janúar þar sem hann mun starfa sem fjölmiðlafulltrúi næstu mánuði.
Björn verður staðsettur í herstöð fjölþjóðahersins í höfuðborg Afganistan, Kabúl, en eins og kunnugt er stendur til að draga úr hernaðarlegu umfangi í Afganistan frá og með næstu áramótum.
„Ég skráði mig fyrir nokkrum árum hjá Friðargæslunni og gaf þá til kynna að ég væri tilbúinn í verkefni af þessu tagi,“ segir Björn Malmquist í samtali við Kjarnann. „Ég fékk svo símtal fyrir nokkrum vikum þar sem ég var spurður hvort ég væri til í þetta. Eftir nokkra umhugsun og samtal við fjölskylduna ákvað ég að slá til, enda spennandi verkefni sem ég hlakka mikið til að takast á við.“
Þrír Íslendingar eru nú starfandi í Kabúl á vegum utanríkisráðuneytisins, einn jafnréttisfulltrúi og tveir sem starfa á flugvellinum í borginni, og mun Björn því bætast í þeirra hóp. Dvöl hans í Kabúl verður á vegum íslensku friðargæslunnar, en í dag eru ellefu friðargæsluliðar á vegum íslenskra stjórnvalda að störfum erlendis, flestir hjá Sameinuðu þjóðunum í Miðausturlöndum.
Eins og áður segir mun Björn hefja störf á fjölmiðladeild alþjóðaliðs NATO í janúar, á vegum utanríkisráðuneytisins, en hann heldur utan til Brussel í næstu viku til að undirbúa sig undir veruna í Afganistan.