Blaðamaðurinn Freyr Bjarnason, sem nýverið hætti störfum á Fréttablaðinu eftir 14 ára starf, hefur ráðið sig til starfa á DV. Freyr vann síðasta vinnudag sinn á Fréttablaðinu 13. febrúar síðastliðinn. Freyr hefur þegar hafið störf og mun sinna fréttaskrifum. Hann er einnig þekktur sem knattspyrnumaður en Freyr var kjölfesta í mjög sigursælu liði FH um árabil áður en hann lagði skóna á hilluna árið 2013.
Miklar hræringar hafa verið hjá DV síðustu mánuði. Í desember tók hópur nýrra eigenda, undir forystu Björns Inga Hrafnssonar, yfir DV. Á meðal þeirra sem eru í hópnum með Birni Inga eru Arnar Ægisson, Sigurður G. Guðjónsson, Jón Óttar Ragnarsson, Steinn Kári Ragnarsson og Þorsteinn Guðnason. Fyrrum aðaleigendur DV, Reynir Traustason og viðskiptafélagar hans, eiga enn minnihluta í fjölmiðlinum. Sá hópur stofnaði nýverið fjölmiðilinn Stundina sem hefur komið út einu sinni í prentuðu formi og opnar von bráðar fréttavefsíðu.
Þrír nýir ritstjórar voru ráðnir á DV í kjölfar þessarra hræringa, þau Eggert Skúlason, Kolbrún Bergþórsdóttir og Hörður Ægisson, sem verður viðskiptaritstjóri. Hallgrímur Thorsteinsson, sem hafði verið ritstjóri DV frá því í september var sagt upp því starfi og sagt að hann myndi þess í stað leiða stefnumótum á sviði talmálsútvarps á vegum Pressunnar. Síðar hefur komið fram að hann ætlar að vinna upp uppsagnarfrest sinn og síðan hætta að starfa fyrir félagið.
Fjölmargir blaðamenn hafa komið og farið á DV á þessum tíma. Ritstjórnarfulltrúinn Ingi Freyr Vilhjálmsson, Jóhann Páll Jóhannsson og Jón Bjarki Magnússon eru á meðal þeirra sem hafa hætt en Haraldur Guðmundsson og Val Grettisson á meðal þeirra sem hafa bæst við hópinn.