Árið 2014 fæddust 4.375 börn á Íslandi. Það er svipaður fjöldi og árið 2013 þegar 4.326 börn fæddust. Í fyrra fæddust 2.233 drengir og 2.142 stúlkur. Það jafngildir 1.042 drengjum á móti hverjum 1.000 stúlkum. Hagstofan greinir frá þessu í dag.
„Helsti mælikvarði á frjósemi er fjöldi lifandi fæddra barna á ævi hverrar konu og er yfirleitt miðað við að frjósemi þurfi að vera um 2,1 barn til þess að viðhalda mannfjöldanum til lengri tíma litið. Árið 2014 var frjósemi íslenskra kvenna 1,93 börn á ævi hverrar konu, eða sú sama og árið 2013, en þá hafði hún farið undir tvö í fyrsta sinn frá 2003. Undanfarin ár hefur frjósemi á Íslandi verið rétt um tvö börn á ævi hverrar konu. Frjósemin nú er nærri helmingi minni en hún var um 1960, en þá gat hver kona vænst þess að eignast rúmlega fjögur börn á ævi sinni,“ segir í frétt Hagstofunnar.
„Frjósemi á Íslandi hefur verið hærri en annars staðar í Evrópu á síðustu árum. Ásamt Íslandi hefur frjósemi verið yfir tveimur í Frakklandi, á Írland og í Tyrklandi síðustu ár, en 2013 voru öll löndin undir tveimur fyrir utan Tyrkland. Þá var frjósemi að meðaltali 1,55 í 28 löndum Evrópusambandsins árið 2013. Lægst hefur fæðingartíðnin innan álfunnar verið í löndum Suður-Evrópu og árið 2013 er engin undantekning á því. Hún var 1,21 í Portúgal, 1,27 á Spáni og 1,30 á Grikklandi og Kýpur. Einnig var frjósemin undir 1,3 í Póllandi árið 2013.“
Undir 30% barna fæðist innan hjónabands
Árið 2014 fæddust undir 30% barna í hjónabandi (29,5%) og er það í fyrsta sinn sem hlutfall barna fæddra innan hjónabands fer undir 30% á Íslandi. Rúmlega 53% barna fæddust í óvígðri sambúð árið 2014 og 17% barna fæddust því utan sambúðar eða hjónbands í fyrra.
Af 28 löndum Evrópusambandsins fæðast 40% barna utan hjónabands. Næstólíklegast, á eftir Íslandi, er að börn fæðist innan hjónabands í Búlgaríu (59,1%), Eistlandi (58,4%) og síðan Slóveníu (58%). Til samanburðar fæðast varla börn utan hjónabands í Tyrklandi (2,7%) og það sama er hægt að segja um Grikkland (7%). Á Norðurlöndunum var rúmlega helmingur allra barna fæddur utan hjónabands árið 2013.