Frá árinu 2001 til miðs árs 2015 greiddi Orkuveita Reykjavíkur (OR) fyrirtækinu Frumherja um 5,7 milljarða króna að núvirði í leigu fyrir rafmagns- og vatnsmæla. Þetta kemur fram í Fréttblaðinu í dag.
Árið 2001 var mæla-rekstur OR einkavæddur og seldur Frumherja sem leigði Orkuveitunni mælana. Orkuveitan keypti þá nýlega aftur fyrir um tæplega 1,6 milljarða króna. Mælarnir eru um 150 þúsund talsins.
Í umfjöllun Fréttablaðsins kemur fram að hvorki forsvarsmenn OR né Veitna, dótturfélags OR, treysta sér til að meta hvort ákvörðunin um að selja allt mælasafnið árið 2001 og að leigja það aftur til afnota hafi verið fyrirtækinu hagfelld. Að núvirði námu árlegar greiðslur á bilinu 360 til 420 milljónir króna.
Eignarhald mælanna færist nú til Veitna, dótturfélags OR, sem var stofnað í ársbyrjun 2014 og sér um allan hefðbundinn veiturekstur.