Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra mælti í dag fyrir frumvarpi um breytingar á lögum um alþjóðlega þróunarsamvinnu. Verði frumvarpið að lögum verður Þróunarsamvinnustofnun Íslands lögð niður og verkefni hennar færð til utanríkisráðuneytisins. Þar verður stofnuð þróunarsamvinnunefnd auk þess sem breytingar verða gerðar á fyrirkomulagi íslensku friðargæslunnar.
Í frétt á heimasíðu utanríkisráðuneytisins segir að megintillaga frumvarpsins um að færa starfsemi Þróunarsamvinnustofnunar til utanríkisráðuneytisins miði „að því að einfalda skipulag til að hámarka árangur af þróunarsamvinnu og nýta þá fjármuni sem íslensk stjórnvöld veita til málaflokksins sem best. Með sameiningu næst betri heildarsýn yfir málaflokkinn, samhæfing og skilvirkni efld, komið veg fyrir skörun verkefna og dregið úr óhagræði og tvíverknaði í rekstri og stjórnun.“
Þar er haft eftir Gunnari Braga að með nýju fyrirkomulagi þróunarsamvinnu séu tengsl þróunarsamvinnu og annarra utanríkismála styrkt og samskipti við erlend ríki og stofnanir á sviði þróunarsamvinnu samstillt við utanríkisstefnuna. „Alþjóðleg þróunarsamvinna hefur tekið umfangsmiklum breytingum sem kallar á breytta nálgun í þróunarsamvinnu. Takast þarf á við hnattrænar áskoranir sem krefjast samspils þróunarsamvinnu og annarra utanríkismála.“
Við sameininguna verður öllum starfsmönnum Þróunarsamvinnustofnunnar boðin sambærileg störf í ráðuneytinu.