Stjórnarskrárnefnd stefnir að því að skila skýrslu í formi frumvarps til Alþingis á allra næstu vikum. Frumvarpið mun snúast um ferns konar breytingar á stjórnarskránni: þjóðaratkvæðagreiðslur á grundvelli undirskrifta, framsal valdaheimilda í þágu alþjóðasamvinnu, auðlindir og umhverfisvernd. Þetta staðfestir Páll Þórhallsson, formaður nefndarinnar, í Morgunblaðinu í dag.
Þar segir Páll einnig að það þurfi að finna ýmsar málamiðlanir ef tímafresturinn eigi að ganga upp. „Þó eru allir meðvitaðir um að ef nýta eigi bráðabirgðaákvæði um breytingar á stjórnarskránni og halda atkvæðagreiðslu um þær samhliða forsetakosningum, þá fer tíminn brátt að renna frá okkur[...]Þetta þarf að afgreiðast á Alþingi fyrir jól og þingið þarf að minnsta kosti nokkrar vikur til að ræða frumvarpið. Þess vegna höfum við lagt allt kapp á að skila þessu af okkur í september svo að hægt verði að leggja fram frumvarpið um og upp úr næstu mánaðamótum.“
Hægt verður að kjósa um stjórnarskrárbreytingar samhliða forsetakosningunum á næsta ári vegna þess að í lok síðasta kjörtímabils var samþykkt stjórnlagabreyting sem gerir breytingar á stjórnarskránni á grundvelli þjóðaratkvæðagreiðslu mögulegar innan þessa kjörtímabils.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra skipaði stjórnarskrárnefnd í nóvember 2013. Hlutverk hennar var að vinna ákveðnar breytingar á stjórnarskrá í kjölfar þess að frumvarp stjórnlagaráðs náði ekki í gegn á síðasta kjörtímabili.
Stórar tillögur stjórnarlagaráðs ekki til umræðu
Á síðasta kjörtímabili lagði stjórnlagaráð, sem kosið var til af þjóðinni, fram frumvarp um miklar breytingar á stjórnarskrá íslenska lýðveldisins. Frumvarpið var lagt fram árið 2011. Kosið var um tillögur ráðsins haustið 2012 þar sem tveir af hverjum þremur sem tók þátt í kosningunum sagðist vilja að tillögur ráðsins yrðu lagðar til grundvallar nýrri stjórnarskrá. Í tillögunum var meðal annars að finna ákvæði um að auðlindir yrðu þjóðareign og að tiltekið hlutfall kosningabærra manna geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu, líkt og verður að öllum líkindum i frumvarpi stjórnarskrárnefndar.
Þar voru einnig tillögur um stórtækar breytingar á íslenska kosningakerfinu þar sem lagt var til að heimila aukið persónukjör og að atkvæði landsmanna myndu öll gilda jafn mikið, en mikið ósamræmi er í því vægi á milli landshluta í dag. Báðar tillögurnar voru samþykktar með yfirgnæfandi meirihluta í þjóðaratkvæðagreiðslunni í október 2012. Þær eru hins vegar ekki sjáanlegar í vinnu stjórnarskrárnefndar.