Frumvarp um stöðugleikaskatt verður lagt fram á yfirstandandi vorþingi og vinna við það er á lokametrunum. Skatturinn á að ganga út á að viðhalda efnahagslegum stöðugleika og gera Íslandi kleift að stíga skref í átt að losun fjármagnshafta. Höft verða hins vegar ekki afnumin í einu skrefi. Þetta sagði Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, að loknum ríkisstjórnarfundi í morgun. RÚV greinir frá.
Í frétt RÚV er haft eftir Bjarna að það séu „gríðarlega mikil vonbrigði að nú séu bráðum liðin sjö ár án þess að slitabúin hafi komið fram með raunhæfa áætlun um nauðasamninga sem hægt sé að fallast á og veita þannig undanþágu frá höftunum fyrir[...]En við getum ekki búið endalaust við það ástand. Slitabúin eru jú eigendur að stórum fjármálafyrirtækjum hér á Íslandi og eru eins og ég sagði einn stærsti áhættuþátturinn varðandi afnám haftanna. Þess vegna geta stjórnvöld þurft að höggva á hnútinn og það þarf ekki að koma neinum á óvart að skattur er ein af lykilaðgerðunum sem við höfum verið að horfa til í því efni.“
Kynnt á flokksþingi
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra tilkynnti það í yfirlitsræðu sinni á flokksþingi Framsóknarflokksins á föstudag að hrint yrði í framkvæmd áætlum um losun hafta áður en yfirstandandi þing lýkur störfum. Samkvæmt áætluninni muni sérstakur stöðugleikaskattur skila hundruðum milljarða króna samhliða þeim aðgerðum. Fyrir föstudaginn 10. apríl hafði hugtakið stöðugleikaskattur aldrei verið nefnt í íslenskum fjölmiðlum eða opinberum gögnum. Þessar yfirlýsingar forsætisráðherra, sem hann ákvað að setja fram á flokksþingi félagsmanna sinna, voru ekki ræddar á ríkisstjórnarfundinum í morgun.
Már Guðmundsson seðlabankastjóri ræddi stöðugleikaskatt á fundi efnahags- og viðskiptanefndar í gær. Þar sagðist hann vita hvað stöðugleikaskattur sé og líkti skattinum, þegar að honum komi, við mengunarskatt. Krónustöður í eigu erlendra aðila sem séu fastar á efnahagsreikningi þjóðarbúsins mættii líkja við mengun sem hafi áhrif á þriðja aðila án þess að hann hafi nokkuð til saka unnið. Því sé réttlætanlegt að beita skattlagningu til að verja þann þriðja aðila. Már ítrekaði hins vegar, líkt og Bjarni í dag, að höft verði ekki afnumin í einu skrefi.