Samningurinn milli Íslands og Evrópusambandsins um lækkun tolla á matvörum er ánægjulegur, og á að leiða til þess að neytendur hagnist. Það er ef allt er eðlilegt á samkeppnismarkaði.
Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, fagnar samningnum sérstaklega, þó alltaf megi gera meira í þessum efnum. Í samtali við Morgunblaðið segist hann ekki óttast að afnám tolla á vörum skili sér ekki alla leið neytenda. Samkeppnin á matvörumarkaði sé hörð.
Eflaust er þetta rétt hjá Ólafi, en það má samt ekki gleyma því að stærsta fyritækið á íslenskum matvörumarkaði, Hagar, hefur verið sektað um hundruð milljóna króna fyrir brot á samkeppnislögum.
Bara það eitt ætti að kveikja viðvörunarbjöllur í þessu samhengi. Kannski er full ástæða til þess fyrir almenning að taka neytendavitundina upp á næsta stig, og fylgjast grannt með því hvort það sé ekki alveg öruggt að niðurfelling tolla skila sér í lægra verði. Enginn getur veitt ríkara og áhrifameira aðhald í málum sem þessum, en viðskiptavinurinn sjálfur.