„Það er fullkomið ábyrgðarleysi af ríkinu að leggja fram fjárlagafrumvarp án þess að bæta sveitarfélögunum upp það sem vantar í fjármögnun hennar sem hefur gríðarleg og alvarleg áhrif á fjárhag sveitarfélaga og verkefni um land allt.“ Þetta segir í bókun þeirra flokka sem standa að meirihlutanum í Reykjavík sem birtist í uppfærðri umsögn Reykjavíkurborgar um fyrirliggjandi fjárlagafrumvarp sem samþykkt var á fundi borgarráðs í síðustu viku. Athygli vekur að einn þeirra flokka, Framsóknarflokkurinn, er líka í þeirri ríkisstjórn sem stendur að fjárlagafrumvarpinu.
Þar segir enn fremur að vanfjármögnun ríkisins á verkefnum sveitarfélaga sé sláandi í fjárlagafrumvarpi næsta árs, einkum í ljósi þess að ríkið geri sífellt meiri kröfur um þjónustu sveitarfélaga án þess að fjármagn fylgi með. „Þetta er í mörgum tilfellum þjónusta sem krefst mikillar mönnunar. Til að mynda þjónusta við fatlað fólk, þjónusta við börn með alvarlegar þroska- og geðraskanir, frístund fatlaðra ungmenna, áframhaldandi uppbygging á húsnæði fyrir fatlað fólk, NPA, íslenskukennsla fyrir börn af erlendum uppruna, rekstur grunnskóla, samningar um móttöku flóttafólks og svo mætti lengi telja. Reykjavíkurborg og sveitarfélögin hafa lagt metnað sinn í að sinna þessum verkefnum í samræmi við lög og vinna að stöðugum umbótum í þjónustunni.“
Sjálfstæðisflokkurinn sat hjá
Fulltrúar stærsta flokksins í minnihluta í borgarstjórn, Sjálfstæðisflokkurinn, sátu hjá við afgreiðslu uppfærðu umsagnarinnar. Það gerðu hins vegar ekki allir fulltrúar minnihlutans. Sanna Magdalena Mörtudóttir frá Sósíalistaflokki Íslands, lét bóka að hún tæki heilshugar undir þær áherslur sem komi fram í umsögn Reykjavíkurborgar við frumvarp til fjárlaga. „Hér er mikilvægt að taka fram að allt of lengi hefur ríkisvaldið komið verkefnum til sveitarfélaganna án þess að fjármagn eða tekjustofnar hafi fylgt. Sósíalistar leggja áherslu á að tekjustofnar sveitarfélaganna verði auknir og að aukið fjármagn fylgi verkefnum sem sett eru í hendur þeirra. Hér er augljóst að leiðrétta þarf fjárframlög ríkisins til borgarinnar, þannig að fjármagn verði veitt eftir því sem raunverulega kostar að veita þjónustuna. Íbúar eiga ekki að þurfa að finna fyrir deilum á milli ríkis og sveitarfélaga um fjármögnun á þjónustu sem þeir eiga lögbundinn rétt á. Ljóst er að stórauka þarf tekjur til borgarinnar og í því samhengi hafa sósíalistar lagt áherslu á útsvar á fjármagnstekjur og að hluti af áfengisgjaldi renni til sveitarfélaganna, svo dæmi séu nefnd.“
Hún telur að leiðrétta þurfi fjárframlög ríkisins til borgarinnar þannig að fjármagn verði veitt eftir því sem það kostar að veita þjónustuna. „Flokkur fólksins vill nefna hér sérstaklega þjónustu við fatlað fólk og íslenskukennslu barna af erlendum uppruna. Flokkur fólksins bendir á að nú þegar eru langir biðlistar í íslenskuver borgarinnar en þar eru ungmennin í forgangi. Staðan er þannig núna að það eru eingöngu nemendur í unglingadeildum sem fá inni í íslenskuverum borgarinnar. Það verður að fjölga íslenskuverum sem hafa gefið góða raun. Þannig væri hægt aðstoða fleiri nemendur og yngri nemendur fengju þá kennslu líka. Því miður virðist ríkja ákveðið skilningsleysi á þörfum barna því þessu verkefni fylgir ekki nægjanlegur fjárhagslegur stuðningur frá ríkinu. Að þessu verkefni þurfa ríki og borg að vinna saman.“
Vantar 12-13 milljarða á ári
Í upprunalegri umsögn borgarinnar um fjárlagafrumvarpið sagði að ríkið hafi ógnað sjálfbærni sveitarfélaga á Íslandi með því að vanfjármagna ýmis verkefni sem ríkisvaldið ætlar sveitarfélögum að sinna. Þar beri vanfjármögnun á málaflokki fatlaðs fólks hæst.
Í umsögninni var dregið saman að borgin líti svo á að vanfjármögnun ríkisins á hinum ýmsu verkefnum sem borgin sinni, stundum í samstarfi við önnur sveitarfélög, nemi yfir 19 milljörðum króna. Þar af sé þjónusta við fatlað fólk, sem færðist frá ríki til sveitarfélaga árið 2011, vanfjármögnuð um 10,8 milljarða króna.
Reykjavíkurborg er síður en svo eina sveitarfélagið sem er í þessari stöðu. Starfshópur sem skipaður var til að meta kostnað við málaflokkinn hafi komst að þeirri niðurstöðu að hallinn á landsvísu hafi verið um 8,9 milljarðar á landsvísu árið 2020 og að búast megi við því að hann hafi verið allt að 12-13 milljarðar á síðasta ári.
Lagði til að útsvar yrði hækkað um 0,26 prósentustig
Í setningarræðu fjármálaráðstefnu sveitarfélaga sem haldin var í síðustu viku kom Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga og borgarfulltrúi í Reykjavík, inn á þetta málefni og sagði mikilvægt er að niðurstaða viðræðna liggi fyrir eigi síðar en 1. desember 2022 og sveitarfélögum verði strax bætt vanfjármögnun málaflokksins. Ekki er gert ráð fyrir neinu fjármagni frá ríki til sveitarfélaga vegna þessa í fyrirliggjandi fjárlagafrumvarpi, sem þó gerir ráð fyrir að ríkissjóður verði rekinn í 89 milljarða króna halla.
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins og innviðaráðherra, sagði í ræðu sinni á ráðstefnunni að ljóst væri að umfang þess fjárhagsvanda sem sveitarfélög landsins glíma við vegna aukins kostnaðar í tengslum við málefni fatlaðs fólks sé orðið af þeirri stærðargráðu að tilefni gæti verið til að mæta honum sem fyrst með ráðstöfunum til bráðabirgða, þar til fullnaðaruppgjör og greining liggur fyrir af hálfu sérstakrar nefndar sem hefur málið til umfjöllunar.
Hann viðraði svo þá hugmynd til að mæta vandanum að hækka útsvarsprósentuna sem sveitarfélög innheimta um 0,26 prósentustig til að skila þeirri tekjuaukningu sem til þarf til að brúa bilið í málaflokknum. Á móti yrðu öll skattþrep í tekjuskatti ríkisins lækkuð um 0,26 prósentustig til að allir skattgreiðendur væru jafnsettir eftir sem áður. Þetta ætti að skila fimm til sex milljörðum króna í nýjar tekjur fyrir sveitarfélög landsins.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra var spurð út í þessa hugmynd í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í gær af Loga Einarssyni, formanni og þingmanni Samfylkingarinnar. Þar svaraði forsætisráðherra því til að hugmyndin hefði ekki verið rædd við ríkisstjórnarborðið.