Fulltrúar undirskriftasöfnunarinnar þjóðareign.is funduðu í dag með Sigurði Inga Jóhannssyni sjávarútvegsráðherra, en þetta kemur fram í tilkynningu frá aðstandendum undirskriftasöfnunarinnar.
Nú hafa tæplega 51 þúsund manns skrifað undir áskorunina um að forseti Íslands vísi makrílfrumvarpi Sigurðar Inga, og öllum öðrum lögum sem þar sem fiskveiðiauðlindum er ráðstafað til meira en eins árs, í þjóðaratkvæðagreiðslu.
Að sögn aðstandenda voru viðræðurnar við sjávarútvegsráðherra ítarlegar og málefnalegar. „Á fundinum lýstu fulltrúar þjóðareign.is því hversu óráðlegt þeir telja að farið sé í bindandi úthlutun á aflahlutdeildum, nú makríl, til lengri tíma en eins árs á meðan enn er ófrágengið ákvæði í stjórnarskrá sem kveður á um eignarhald þjóðarinnar á fiskveiðiauðlindinni og að fyrir afnotin komi fullt gjaldi,“ segir í tilkynningu frá þeim.
„Með makrílfrumvarpinu, ef það nær fram að ganga, verður vart aftur snúið frá endanlegri afhendingu auðlinda almennings, að mati þjóðareign.is. Í frumvarpinu er kveðið á um að úthlutun makrílkvóta sé í raun ótímabundin þar sem afturköllun yrði að styðjast við þingmeirihluta tvö ef ekki þrjú kjörtímabil í röð eigi hún að ná fram að ganga. Á hinn bóginn gefur það auga leið að aflahlutdeildir verða ekki innkallaðar fyrirvaralítið og vera má að allar meginbreytingar á núgildandi kvótakerfi kalli á ígildi sex ára aðdraganda. En sá reginmunur er á að uppstokkun á kerfinu gæti hafist strax nú og tekið hægt og bítandi gildi án hættu á skaðabótum fyrir ríkissjóð,“ segja aðstandendur söfnunarinnar.