Eiríkur Finnur Greipsson, fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í stjórn RÚV, gagnrýnir fréttamiðilinn Stundina harðlega fyrir lágkúruleg vinnubrögð og fyrir að skeyta engu um mannorð heiðarlegs og duglegs fólks vegna fréttaflutnings miðilsins um tengsl Illuga Gunnarssonar, mennta- og menningarmálaráðherra, við fyrirtækið Orku Energy. Gagnrýnin er sett fram í ummælum við Facebook-stöðuuppfærslu Illuga þar sem ráðherrann birti skattframtal sitt vegna undanfarinnar ára.
Eiríkur Finnur situr í stjórn RÚV fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins. Þangað var hann skipaður í janúar á þessu ári eftir að Illugi bað hann um það. RÚV hefur einnig fjallað umtalsvert um tengsl Illuga við fyrirtækið Orku Energy. og meðal annars spurt hann út í þær upplýsingar sem fram komu í fréttaflutningi Stundarinnar um málið. Þá sagði RÚV frá frétt Stundarinnar sem varð tilefni þess að Illugi birti skattframtal sitt.
Í ummælunum segir Eiríkur Finnur frá því að hann hafi unnið með og þekkt Illuga frá unglingsárum og eiginkonu hans frá fæðingu. Þau séu miklir vinir þeirra hjóna. "Ég verð að viðurkenna að ég skil ekki hversu lágkúrulegum vinnubrögðum er unnt að beita til þess eins að afla sér tekna og lífsviðurværis af útgáfu fréttamiðils eins og Stundarinnar, og skeyta engu um mannorð heiðarlegs og duglegs fólks. Hver skyldi verða næstur fyrir aftökusveitina?"
Hefur ekki svarað spurningum um greiðslu til OG Capital
Illugi Gunnarsson hefur verið gagnrýndur víða fyrir tengsl sín við Orku Energy, ekki síst vegna heimsóknar til Kína í vor þar sem fulltrúar frá Orku Energy voru líka, en Illugi starfaði fyrir fyrirtækið árið 2011 auk þess sem hann hefur greint frá því að stjórnarformaður þess Haukur Harðarson hafi keypt íbúð hans vegna fjárhagsvandræða. Illugi og fjölskylda leigja nú íbúðina aftur af Hauki.
Illugi hefur sagt opinberlega að hann hafi aðeins fengið 5,6 milljóna launagreiðsluna frá Orku Energy og að sú greiðsla hafi verið vegna vinnu sem hann vann árið 2011. Hann birti launaseðil sinn vegna greiðslunnar í fréttum Stöðvar 2 fyrir viku síðan.
Í vikunni greindi Stundin hins vegar frá að miðillinn hefði heimildir fyrir því að eignarhaldsfélag sem þá var í eigu Illuga, OG Capital, hefði fengið 1,2 milljón króna greiðslu frá Orku Energy síðla árs 2012. Í kjölfarið birti Illugi skattframtal sitt og eiginkonu sinnar vegna áranna 2012 og 2013 á Facebook og sagði það sýna að engar launagreiðslur, arðgreiðslur eða aðrar greiðslur hefðu komið til hans eða eiginkonu hans á árinu 2012 eða 2013. Illugi svaraði því hins vegar ekki í stöðuuppfærslunni hvort OG Capital hefði fengið umrædda greiðslu síðla árs 2012.