Guðrún Johnsen hagfræðingur verður fundarstjóri á sameiginlegum umræðufundi stjórnarandstöðuflokkanna um losun gjaldeyrishaftanna, sem fer fram í hádeginu á morgun. Í tilkynningu sem send var út til fjölmiðla á mánudag var tilkynnt að Þóra Arnórsdóttir, fréttamaður í Kastljósi, myndi stýra fundinum en hún afboðaði sig hins vegar í morgun.
Þóra segir ástæðuna vera þá að starfsfólk Kastljóss heyri nú undir fréttastofu og megi ekki taka að sér aukavinnu nema í undantekningartilfellum. Þessi tilfærsla hafi átt sér stað í haust á meðan að hún dvaldi erlendis, en hingað til hafi hún unnið töluvert við funda- og ráðstefnustjórn. Lísa Kristjánsdóttir, aðstoðarmaður formanns Vinstri grænna, sagði í tölvupósti til Kjarnans fyrr í dag að nýr fundarstjóri hafi ekki verið staðfestur, en seinnipartinn í dag tók Guðrún Johnsen hagfræðingur boði um að stýra fundinum.
Fundurinn fer fram í Iðnó í hádeginu á morgun, fimmtudag, og er öllum opinn. Að honum standa Samfylkingin, Vinstri græn, Björt framtíð og Píratar. Í sameiginlegri tilkynningu stjórnarandstöðuflokkanna til fjölmiðla kemur fram að þeir telji losun hafta „eitt stærsta viðfangsefni íslensks efnahagslífs um þessar mundir. Flokkarnir sem standa að fundinum telja grundvallaratriði að fram fari málefnaleg umræða um þetta mikilvæga mál fyrir opnum tjöldum“.
Þrír frummælendur verða á fundinum, þau Sigríður Benediktsdóttir, hagfræðingur hjá Seðlabankanum, Ásgeir Jónsson, dósent í hagfræði, og Ólafur Darri Andrason, hagfræðingur ASÍ.
Uppfært 23:16: Í fyrstu útgáfu fréttarinnar kom fram að fundurinn á morgun væri ekki með staðfestum fundarstjóra, en nú undir kvöld samþykkti Guðrún Johnsen hagfræðingur að stýra fundinum.