Verkefnið Future Habits hlaut verðlaunin Val fólksins í Gullegginu, frumkvöðlakeppni Klak Innovit, en úrslitin voru tilkynnt á lokahófi Gulleggsins sem fór fram fyrr í dag. Var það í fyrsta skipti sem verðlaunin eru veitt en almenningi hefur aldrei áður gefist kostur á að velja verkefni í Gullegginu.
Strimillinn, fyrirtæki sem ætlað er til að auka verðvitund fólks, hlaut fyrstu verðlaun í Gullegginu í ár. Strimillinn er app þar sem fólk getur sent inn myndir af innkaupastrimlum sínum. Forrit les svo verðupplýsingar af strimlinum og veitir þannig fólki upplýsingar um hreyfingar á verðlagi í rauntíma.
Sigurvegar Gulleggsins í ár er Strimillinn. Stofnendur fyrirtækisins eru Hugi Þórðarson, Lee Roy Tipton og Sindri Bergmann.
Val fólksins fór fram í kosningu hér á Kjarnanum.
Tíu hugmyndir kepptu til úrslita um að verða Val fólksins. Tölvuleikurinn Future Habits á að kenna börnum á aldrinum þriggja til sjö ára góðar venjur í mataræði. Börnin skapa sér karakter í leiknum og það á að vekja áhuga um hvaða áhrif mismunandi fæða hefur á þau. Ætlunin er að með þessu aukist líkurnar á því að börn temji sér góðar venjur í framtíðinni. Það er íþróttafræðingurinn Birkir Vagn Ómarsson sem á hugmyndina að Future Habits.