Fylgi Framsóknarflokksins mælist um ellefu prósent þriðja mánuðinn í röð. Framkvæmd stórra kosningamála á borð við leiðréttingu á völdum verðtryggðum húsnæðislánum upp á 80 milljarða króna, sem ráðist var í á síðari hluta ársins 2014, virðist ekki skila flokknum neinu auknu fylgi. Þetta kemur fram í nýjum þjóðarpúlsi Capacent sem RÚV greindi frá.
Fylgi Framsóknarflokksins hefur ekki mælst jafn lágt og það hefur mælst undanfarna þrjá mánuði síðan í mars 2009, um einum og hálfum mánuði eftir að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson var kjörinn formaður hans. Framsóknarflokkurinn fékk 24,4 prósent atkvæða í síðustu kosningum sem tryggði honum 19 þingmenn og forsæti í ríkisstjórn.
Sjálfstæðisflokkurinn stærstur, en andstaðan styrkist
Sjálfstæðisflokkurinn er sem fyrr stærsti flokkur landsins og mælist með 27,1 prósent fylgi. Það er mjög svipað og flokkurinn mældist með í síðustu könnun Capacent og aðeins yfir þeim 26,7 prósentum sem Sjálfstæðisflokkurinn fékk í kosningunum vorið 2013.
Saman mælast stjórnarflokkarnir því einungis með 38,2 prósent fylgi.
Samfylkingin er stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn með 20,4 prósent fylgi, sem er töluvert betra en þau 12,9 prósent sem flokkurinn fékk í síðustu kosningum, þegar hann beið afhroð. Fylgi Samfylkingarinnar hefur verið að aukast hægt og bítandi í síðustu könnunum.
Björt Framtíð og Vinstri græn mælast jafn stór, báðir flokkar myndu fá 12,8 prósent atkvæða ef gengið yrði til kosninga í dag. Píratar mælast nánast jafnstórir og Framsóknarflokkurinn með 10,7 prósent fylgi.
Fylgistap Framsóknarflokksins virðist því nánast einvörðungu vera að leita til stjórnarandstöðuflokkanna.