Óveður gengur nú yfir landið með tilheyrandi vindstyrk, en versta veðrið er nú á Suðurlandi. Samkvæmt veðurspá Veðurstofunnar fyrir næsta sólarhringinn er gert ráð fyrir austan 20 til 30 metrum á sekúndu sunnanlands, snjókomu og skafrenningi, og hvassast með Suðurströndinni. Annars staðar er gert ráð fyrir austan og norðaustan 13 til 23 metrum á sekúndu, dálitlum éljum og skafrenningi.
Fólki er ráðlagt að halda sig innandyra og vera alls ekki á ferðinni að óþörfu enda ekkert ferðaveður á landinu um þessar mundir. Veðurstofan varar við stormi á landinu þangað til á morgun.
Veðurstofan gerir ráð fyrir norðan tíu til 18 metrum á sekúndu á morgun, en 15 til 23 metrum á sekúndu Suðaustantil, éljum eða snjókomu Norðan- og Austanlands, en að úrkomulaust verði annars staðar. Þá dregur úr vindi á Vestanverðu landinu seinnipartinn á morgun og gert er ráð fyrir allt að sjö stiga frosti á landinu á morgun.
Hægt er að fylgjast með óveðrinu sem nú gengur yfir landið á vefsíðunni earth.nullschool.net með því að smella hér.