Fyrirtaka verður í Marple-málinu svokallaða í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag en í því eru Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, Magnús Guðmundsson, fyrrverandi bankastjóri Kaupþings í Lúxemborg, Guðný Arna Sveinsdóttir, fyrrverandi fjármálastjóri Kaupþings, og Skúli Þorvaldsson fjárfestir, ákærð.
Í málinu er meðal annars ákært fyrir fjárdrátt. Málið snýst um tilfærslu á um átta milljörðum króna úr sjóðum Kaupþings til félagsins Marple Holding, í eigu Skúla, án þess að lögmætar viðskiptalegar ákvarðanir lægju þar að baki. Hin ákærðu eiga yfir höfði sér allt að sex ára fangelsi verði þau fundin sek.
Hreiðar Már var á dögunum dæmdur í Hæstarétti í fimm og hálfs árs fangelsi fyrir markaðsmisnotkun og umboðssvik í Al Thani málinu en Magnús fékk fjögurra og hálfs árs dóm.