Einkahlutafélagið BAB Capital keypti fasteignir við Laugaveg 4 og 6 og Skólavörðustíg 1A og reitinn sem fasteignirnar standa á, fyrir 365 milljónir króna af Reykjavíkurborg í lok sumars. Einkahlutafélagið er í eigu Bjarka Andrew Brynjarssonar framkvæmdastjóra Marorku. Reykjavíkurborg reyndi að selja húsin í lokuðu útboði, sem skilaði ekki ásættanlegri niðurstöðu. Tvær fasteignasölur voru því fengnar til að afla tilboða, þrjú tilboð bárust og átti BAB Capital hæsta boðið. Eignirnar eru nú komnar í eigu einkahlutafélagsins L4, sem sömuleiðis er í eigu sama aðila.
Fyrrverandi eigandi húsanna, það er Jóhannes Sigurðsson sem seldi Reykjavíkurborg fasteignirnar fyrir háar fjárhæðir fyrir nokkrum árum, hefur kynnt sig sem forsvarsmann nýrra eigenda í samskiptum við núverandi leigutaka á reitnum.
Umtöluðust fasteignakaup síðari ára
Reykjavíkurborg eignaðist reitinn og fasteignirnar í lok janúar árið 2008, í einum umtöluðustu fasteignakaupum síðari ára, þegar hún greiddi hlutafélaginu Kaupangi, í eigu Jóhannesar Sigurðssonar, 580 milljónir króna fyrir húsin og lóðina. Kaupin voru gerð með samþykki þáverandi borgarstjóra, Ólafs F. Magnússonar. Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, fyrrverandi borgarstjóri og oddviti Sjálfstæðismanna í borgarstjórn, sagði í fjölmiðlum á sínum tíma að það hafi verið eitt helsta baráttumál Ólafs F. Magnússonar að húsin við Laugaveg yrðu endurbyggð sem næst sinni upprunalegu mynd. Ólafur F. sagði hins vegar að Vilhjálmur hafi átt frumkvæði að kaupunum, og hann hafi keyrt málið áfram af mikilli hörku.
Kaupangur komst í fréttirnar í janúar árið 2011 þegar upp komst um að félagið lét Bókabúð Máls og menningar, sem var í eigu Kaupangs, við Laugaveg greiða tæplega tvöfalt hærri húsaleigu en Penninn-Eymundsson greiddi fyrir húsaleigu á sama stað. En Kaupangur átti sömuleiðis húsnæðið. Um mánuði síðar var Bókabúð Máls og menningar tekin til gjaldþrotaskipta.
Kostnaður borgarinnar hleypur á hundruðum milljóna króna
Kostnaður borgarinnar vegna framkvæmda sem ráðist var í á reitnum, þar sem meðal annars húsin við Laugaveg voru færð í sína upprunalegu mynd, var áætlaður um 130 milljónir króna árið 2011. Bókfært verð umræddra eigna var metið á um 728 milljónir króna hjá Reykjavíkurborg. Húsin hafa verið leigð út síðan árið 2011. Til stóð að selja þau fyrir tæpu ári, en þá kom í ljós að leiðrétta þurfti deiliskipulag. Nýtt deiliskipulag var klárað, með töluvert minna byggingamagni en upprunalegt skipulag gerði ráð fyrir, og nú einvörðungu undir verslunarhúsnæði.
Tölvumynd af reitnum.
Fyrri eigandi að eignast í fasteignunum aftur
Bjarki Andrew Brynjarsson, sem keypti umræddan reit af Reykjavíkurborg nýverið eins og áður segir, á einkahlutafélagið Ívaf með áðurnefndum Jóhannesi Sigurðssyni, fyrri eigenda reitsins. Jóhannes segir í samtali við Kjarnann að það hafi sterklega komið til tals milli hans og Bjarka Andrew, að félag þeirra komi að verkefnum L4 ehf. á reitnum. Hann vill ekki útlista frekar mögulega aðkomu Ívafs ehf. að verkefninu, hvort það hyggist kaupa hlut í L4 eða á hvaða verði. Fram til þessa hafi hann bara verið Bjarka til ráðleggingar varðandi kaupin, en þeir séu gamlir vinir.
Eins og áður segir hefur Jóhannes kynnt sig sem forsvarsmann nýrra eigenda húsanna í samskiptum við núverandi leigutaka á reitnum, samkvæmt heimildum Kjarnans. Þar hefur hann komið fram fyrir hönd félagsins og kynnt leigutökum áform þess á reitnum lauslega.
L4 ehf. hefur auglýst fasteignina við Skólavörðustíg 1A til sölu og samkvæmt heimildum Kjarnans er hún verðmetinn af einkahlutafélaginu á 200 milljónir króna.
Skólavörðustígur 1A.
Sem sagt; fasteignir sem borgin greiddi 580 milljónir króna fyrir árið 2008, og varði 130 milljónum króna til að gera upp, voru nýverið seldar á 365 milljónir króna til einstaklings með tengsl við fyrri eigenda húsanna. Eitt húsanna er falt fyrir 200 milljónir króna samkvæmt heimildum Kjarnans, og þá hyggst núverandi eigandi ráðast í uppbyggingu verslunarhúsnæðis á reitnum.
Bjarki Andrew Brynjarsson svaraði ekki skilaboðum Kjarnans við vinnslu fréttarinnar.