Hart er barist um yfirráð yfir DV um þessar mundir. Sú barátta verður leidd til lykta á aðalfundi í næstu viku. Í öðru horninu eru Reynir Traustason, stór eigandi og ritstjóri DV, ásamt helstu lykilstarfsmönnum miðilsins. Innan þeirra raða er sannfæring fyrir því að yfirtöku "hins liðsins" muni fylgja blóðugar uppsagnir. Þeir sem helst eru taldir í hættu eru áðunefndur Reynir, framkvæmdastjórinn Jón Trausti Reynisson, ritstjórnarfulltrúinn Ingi Freyr Vilhjálmsson, aðstoðarritstjórinn Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir og auglýsingastjórinn Heiða B. Heiðars.
Í hinu horninu er maður sem heitir Þorsteinn Guðnason. Hann virðist vera fjarri því að vera mjög fjáður. Samt virðist hópur sem Þorsteinn fer fyrir vera kominn með meirihluta í DV, sérstaklega eftir að Lilja Skaftadóttir, einn stærsti eigandi miðilsins, var keypt út fyrir tugi milljóna króna. Lögmaðurinn Sigurður G. Guðjónsson hefur einnig verið að vinna að því að tryggja þessum hópi yfirráð yfir DV.
Í Bakherberginu heyrist að peningarnir á bakvið nýjan mögulegan meirihlutahóp komi að mestu frá Gísla Guðmundssyni, fyrrum eiganda B&L. Kenningin er að Gísli hafi látið DV fá pening þegar hann lánaði blaðinu fyrir himinhárri skattaskuld í fyrra. Því láni hafi síðar verið breytt í hlutafé. Nú vill hann áhrif í takt við fjárfestinguna.
Bakherbergið birtist í aðeins breyttri mynd í síðustu útgáfu Kjarnans.