Hópur fyrrum hluthafa gamla Landsbankans er búinn að stofna hópmálsóknarfélag og ætlar að stefna Björgólfi Thor Björgólfssyni, fyrrum aðaleiganda bankans, fyrir að dylja raunverulegt eignarhald sitt í bankanum svo hann þyrfti ekki að upplýsa um stórtæk lánaviðskipti sín við hann og fyrir að bregðast ekki við þegar yfirtökuskylda á bankanum myndaðist á árinu 2006. Stefna í málinu er tilbúin og búist er við því að Björgólfi Thor verði stefnt á næstu vikum. Í málinu verður ekki sóst eftir sérstökum bótum heldur verður látið reyna á hvort bótaskylda sé fyrir hendi. Reynist hún vera fyrir hendi verður reynt að finna út hvert mögulegt tjón hluthafanna var. Þetta kom fram í Kastljósi kvöldsins.
Björgólfur Thor hafnar ásökunum hópsins.
Margra ára aðdragandi
Undirbúningur málshöfðunarinnar hefur staðið frá árinu 2011 þegar heilsíðuauglýsingar birtust í íslenskum dagblöðum þar sem skorað var á hluthafa í gamla Landsbankanum að taka þátt í mögulegri hópmálsókn gegn Björgólfi Thor. Á meðal þeirra sem stóðu að undirbúningnum var Vilhjálmur Bjarnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, og lögmaðurinn Ólafur Kristinsson. Síðan þá hefur undirbúningur málshöfðunarinnar staðið yfir og hópurinn hefur meðal annars höfðað vitnamál á hendur Björgólfi Thor og samstarfsmanni hans til að nálgast ákveðnar upplýsingar. Auk þess hefur hópurinn fengið gögn frá slitastjórn gamla Landsbankans við undirbúninginn.
Í Kastljósi kom fram að málið hafi verið kynnt fyrir þeim lífeyrissjóðum sem áttu hlut í Landsbankanum á árunum 2005 til 2008 og að þeir séu að skoða þátttöku í málsókninni. Alls voru hluthafar í gamla Landsbankanum um 25 þúsund talsins þegar hann féll haustið 2008.
Yfirtökuskylda og of há lán
Í umfjöllun Kastljós kom meðal annars fram að hópurinn telji að Björgólfur Thor hafi með skipulegum hætti, og með þátttöku starfsmanna sinna, unnið að því að koma í veg fyrir að upplýsingar um umfang lánveitinga bankans til Björgólfs Thors. birtust opinberlega. Þetta hafi verið gert með því að dylja hversu stóran hlut Björgólfur Thor hafi raunverulega átt í bankanum.
Í stefnunni í málinu kemur fram að lán Landsbankans til Björgólfs Thor hafi verið langt umfram heimildir á árinu 2005 og að á árinu 2006 hafi eignarhald Landsbankans þjappast það mikið saman að það hafi myndast yfirtökuskylda á Björgólf Thor, sem hann hafi hunsað. Með því hafi hann brugðist þeirri skyldu sinni að vernda lögbundin réttindi minni hluthafa í bankanum.
Viðbót klukkan 21:02
Yfirlýsing frá Ragnhildi Sverrisdóttur, talsmanni Björgólfs Thors:
"Vilhjálmur Bjarnason og félagar hafa byggt ályktanir sínar um meintar blekkingar á þeirri staðreynd, að samstarfsmenn Björgólfs Thors áttu lítinn hlut í félagi, sem aftur átti hlut í Landsbankanum. Slíkt eignarhald var og er fullkomlega eðlilegt og allar upplýsingar um það lágu fyrir á hverjum tíma hjá Landsbankanum og Fjármálaeftirlitinu. Að sama skapi lágu fyrir tæmandi upplýsingar um skuldbindingar Björgólfs Thors gagnvart Landsbankanum. Umræddur eignarhlutur hefur ekkert með þær skuldbindingar að gera. Þá er rétt að benda á, að í skuldauppgjöri Björgólfs Thors fólst að hann gerði upp allar skuldir sínar við Landsbanka Íslands. Lán bankans til hans og fyrirtækja tengdum honum voru sannarlega mikil, en að sama skapi voru inneignir miklar og tryggingar öruggar, sem sést best á skuldauppgjörinu.
---
Tæp fimm ár eru frá fyrstu fréttum um að Ólafur Kristinsson lögmaður ætlaði að efna til hópmálsóknar gegn Björgólfi Thor. Ári síðar sagðist hann hafa nokkur hundruð fyrrverandi hluthafa í Landsbankanum með sér í liði, hefði fengið stuðningsyfirlýsingu frá lífeyrissjóðum og fleiri sjóðir ætluðu að taka afstöðu þá um helgina, þ.e. í september 2011. Afstaða lífeyrissjóðanna er ljós. Þeir halda sig fjarri, að Stapa einum undanskildum.
Vilhjálmur Bjarnason gekk til liðs við Ólaf árið 2012 og höfðaði vitnamál til að afla gagna. Ekkert kom fram í því máli, sem studdi við tilgátur þeirra um skaðabótaskyldu. Björgólfur Thor hefur ávallt verið þeirrar skoðunar að eðlilegra sé að reka dómsmál í réttarsal, en ekki í fjölmiðlum. Af hans hálfu verður málinu svarað ítarlega á þeim vettvangi."