Mikil umræða hefur verið undanfarið um svokallað samviskufrelsi presta, frelsi þeirra til að neita að gefa saman samkynhneigð pör. Kristján Valur Ingólfsson, starfandi biskup og vígslubiskup í Skálholti, hefur sagt að samviskufrelsi sé stjórnarskrárvarinn réttur og meðal dýrmætustu mannréttinda. Þessu eru margir ósammála, meðal annars prestar og Ólöf Nordal innanríkisráðherra, sem segir að prestar geti ekki neitað samkynhneigðum pörum um hjónavígslu á þessum grundvelli.
Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, hefur ekki tjáð sig um málið undanfarið, en áður hefur komið fram að hún vilji að prestar geti neitað að gifta pör af sama kyni.
Forveri hennar, Karl Sigurbjörnsson, fyrrverandi biskup, hefur hins vegar tjáð sig um þessi mál á Facebook. Það gerir hann í kaldhæðnu svari við færslu rithöfundarins Guðmundar Andra Thorssonar, sem gagnrýnir orðalagið samviskufrelsi. „Að kenna svona forpokun við samvisku, slíka neitun við frelsi, er vanbrúkun á tungumálinu,“ segir Guðmundur Andri.
"Já, samviskufrelsi manna hefur auðvitað alltaf verið til óþurftar og truflað andlega og veraldlega valdhafa á hverjum tíma sem hafa fundið sig knúna til að taka þau af sem hafa haft einhverjar samviskuskrúblur. Allt of margir hafa í aldanna rás látið lífiið til að verja meint heilög vé samviskunnar, það er sannarlega mál að linni," svarar Karl Guðmundi Andra.
Gengur ekki að gera eigin fordóma meiri en kærleiksboðskap
Vigfús Bjarni Albertsson, sjúkrahússprestur á Landspítalanum, skrifar um málið á sína Facebook-síðu í dag. Hann segist ætla að berjast fyrir því „sem prestur, kirkjuþingsmaður, stjórnarmaður í Prestafélagi Íslands, sem manneskja, að þetta hugtak fái ekki staðist í þessu samhengi. Enn og aftur ætlar fámennur hópur að ógna samfylgd þjóðar og kirkju. Nei takk.“
Vigfús er mjög gagnrýninn á þá presta sem nota þetta hugtak til að neita að framkvæma ákveðnar hjónavígslur og segir hugtakið samviskufrelsi ekki standast skoðun. „Þetta hugtak stenst ekki út frá vígsluréttindum presta. Flestir þeirra eru embættismenn og því skylt að þjóna fólki sem slíkir.“ Það sé ekki hægt að neita fólki um þessi sjálfsögðu mannréttindi að ganga í hjónaband. „Nema þeir vilji breyta þjóðkirkjunni í sértrúarsöfnuð, mjög fámennan söfnuð, verði þeim að góðu.“ Þá segir hann að það gangi ekki að ætla að taka kærleiksboðskap Krists og gera eigin fordóma meiri.
Samviskufrelsi er hugtak, í samhengi hjónavígslu, sem örfáir prestar nota. Þetta hugtak stenst ekki. Rökin eru...Posted by Vigfús Bjarni Albertsson on Tuesday, September 29, 2015