Guðmundur Jóhannesson, deildarstjóri veiðieftirlitssviðs Fiskistofu, sem hefur komið fram fyrir hönd starfsmanna stofnunarinnar vegna fyrirhugaðs flutnings hennar til Akureyrar, gagnrýnir harðlega nýjasta útspil Sigurðar Inga Jóhannssonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, um að fresta flutningi Fiskistofu. Ráðherra hefur sagt að hann muni ekki lengur leggja kapp á að Fiskistofa verði flutt til Akureyrar á þessu ári, eins og áætlanir gerðu ráð fyrir.
„Það er búinn að vera endalaus hringlandaháttur varðandi þessa ákvörðun ráðherra frá upphafi. Það var lagt af stað í þennan leiðangur, að því er virðist, án nokkurra athugana eða undirbúnings. Bréf ráðherra til starfsmanna Fiskistofu frá því í byrjun september hefur ekki verið afturkallað. Þar af leiðandi hangir bréfið ennþá, bæði yfir Fiskistofu og okkur starfsmönnum. Varðandi frumvarpið um breytingu á stjórnarráðslögunum þá höfum við starfsmenn mótmælt því harðlega og fært fram margvísleg rök máli okkar til stuðnings,“ segir Guðmundur í samtali við Kjarnann.
Eyþór Björnsson Fiskistofustjóri segir í samtali við Morgunblaðið í morgun að stofnunin sé að liðast í sundur vegna óvissuástands um framtíð hennar.
„Það er hárrétt hjá Fiskistofustjóra að Fiskistofu er haldið í „heljargreipum óvissunnar.“ Frá því þessi ósköp hófust hefur að jafnaði einn starfsmaður hætt á hálfsmánaðar fresti. Og ekki hefur enn verið ráðið í allar þessar stöður. Fjöldi annarra starfsmanna er í virkri atvinnuleit. Það er því ekki ofsagt að stofnunin sé að byrja að liðast í sundur vegna þessarar dæmalausu ákvörðunar ráðherra,“ segir Guðmundur í samtali við Kjarnann.