Fjármálafyrirtækið Gamma hefur fengið heimild Fjármálaeftirlitsins til að hefja starfsemi í London. Skrifstofur félagsins verða við New Broad stræti í City of London viðskiptahverfinu. Morgunblaðið greinir frá þessu í dag.
Gísli Hauksson, forstjóri félagsins og annar stofnenda þess, segir í samtali við blaðið að mikil tækifæri felist fyrir Íslendinga og íslenskan fjármálamarkað í því að aflétting gjaldeyrishafta sé nú loksins í sjónmáli. „Við höfum haft trú á því að aflétting hafta væri fram undan og höfum unnið að því undanfarin misseri að geta hafið starfsemi erlendis,“ segir hann. „Þó að við stígum fyrstu skrefin varlega til jarðar eru þau stór að okkar mati fyrir íslenskan fjármálamarkað, enda má segja að næstum heil kynslóð fjárfesta og starfsmanna á fjármálamarkaði hafi fengið takmörkuð tækifæri til að taka þátt í alþjóðlegum fjárfestingum vegna gjaldeyrishaftanna.“
Fjármálafyrirtækið Gamma var stofnað í júní 2008. Félagið rekur verðbréfasjóði og fjárfestingasjóði og er með um 44 milljarða króna í stýringu samkvæmt upplýsingum á vefsíðu fyrirtækisins. Viðskiptavinir eru meðal annars lífeyrissjóðir, tryggingafélög og bankastofnanir.