Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, var gestur Unnsteins Manuels Stefánssonar í sjónvarpsþættinum Hæpinu, sem sýndur var á RÚV í kvöld. Aðspurður um útspil Framsóknarflokksins og flugvallavina í aðdraganda síðustu borgarstjórnarkosninga, það er Moskumálið svokallaða, svaraði Geir: "Ég held að Framsóknarflokkurinn hafi hlaupið á sig í því máli. En þeir hafa hins vegar reynt að bjarga sér fyrir horn með það. Mér finnst sjálfsagt, ef ég segi fyrir sjálfan mig, að allir trúarhópar fái að byggja bænahús eða hús fyrir sínar trúarlegu athafnir. Mér fannst gæta fordóma í þessu því miður, og sérstaklega hvernig þetta svona var spilað áfram, en ég vona að allir hafi lært sína lexíu á því."
"Mér fannst gæta fordóma í þessu því miður, og sérstaklega hvernig þetta svona var spilað áfram, en ég vona að allir hafi lært sína lexíu á því."
Unnsteinn Manuel spurði Geir sömuleiðis út í grein sem hann skrifaði í skólablað Menntaskólans í Reykavík árið 1968, þegar Geir var sextán ára, sem innihélt kynþáttafordóma. Unnsteinn Manuel spurði Geir sérstaklega hvað honum fyndist um setninguna: "Það væri fremur óskemmtilegt að að heyra og sjá alls kyns blökku- og múlattalýð tala móðurmál vort og telja sig til vorrar þjóðar." Unnsteinn spurði Geir: "Nú er ég hérna mættur alltalandi á íslensku, er þetta eitthvað sem að þú sérð eftir?" Þá svaraði Geir: "Já, já. Þetta er auðvitað bara óskiljanlegt að þetta skyldi sko sett á blað fyrir tæplega fimmtíu árum. Þetta eru fáránleg ummæli og voru það þá og eru það nú og ég náttúrulega bara skammast mín fyrir þau. Og ef ég hef sært eða meitt einhvern með því, þig eða einhvern annan, þá bara biðst ég afsökunar á því."
Geir segist hafa velt því fyrir sér hvaðan ummæli sín hafi verið sprottinn á þessum tíma. "Þetta er óskiljanlegt fyrir mér. Þetta eru nefnilega heimskupör. Þetta eru heimskupör í sextán ára menntaskólastrák sem birtust í fálesnu skólablaði, og af því að þetta eru heimskupör þá er eiginlega ekki hægt að útskýra þetta. Auðvitað var ég ekki alinn upp við neitt svona, og ég hef ekki alið mín börn þannig upp." Aðspurður um hvort að hann hafi verið hluti af klíku innan Menntaskólans í Reykjavík sem hafi verið á villigötum með þjóðernistilburði, svaraði Geir: "Ég vil ekki koma þessu yfir á neinn annan, sem ég setti á blað. Það getur vel verið að þetta endurspegli að einhverju leyti einhvern tíðaranda þarna upp úr 1960 hérna á Íslandi og út um heim, en þetta er náttúrulega hrein endaleysa og auðvitað fáránlegt og engum til sóma."
Unnsteinn Manuel gaf svo Geir H. Haarde lokaorðið í þættinum. "Hvaða fordómar sem er eiga hvergi rétt á sér, og það ber að berjast gegn þeim eins og menn geta. Það sem er náttúrulega aðalatriðið, og allir verða að hafa í huga, að það er einstaklingurinn sjálfur sem skiptir máli. Ekki hvernig hann lítur út, hvaða litarhaft hann er með, hvaða kynhneigð hann hefur, eða af hvaða kynþætti eða kyni, þetta er ekki það sem skiptir máli. Það skiptir máli hver viðkomandi er, hvaða persónu hann ber og hvernig manneskja viðkomandi er."