Ein af forsendunum fyrir aðgerðunum um losun fjármagnshafta er að gengi krónunnar muni endurspegla raunhagkerfið, og að fyrirtæki og heimili taki ekki á sig frekari byrðar en þegar hefur verið orðið raunin. Í ljósi þess að vöru- og þjónustuviðskipti hafa verið jákvæð fyrir þjóðarbúið að undanförnu, ekki síst vegna öflugs útflutningsgeira, þá gætu áhrifin af aðgerðunum orðið til þess að gengi krónunnar styrktist, haldist viðskiptin hagfelld fyrir þjóðarbúið.
Rætt var ítarlega um þessar forsendur á blaðamannafundi í Hörpu, sem haldinn var í hádeginu, þar sem ítarlega var farið yfir aðgerðaráætlunina í áföngum.
Sigurður Hannesson og Benedikt Gíslason, varaformenn framkvæmdahóps um afnám fjármagnshafta, kynntu aðgerðaráætlunina og skilyrðin sem fyrir liggja, sem hafa verið í undirbúningi undanfarin misseri, og lögðu þeir ríka áherslu á að þjóðarhagsmunir yrðu verndaðir með aðgerðunum, og stoðir efnahagslífsins þar með styrktar.
Í tilkynningu frá efnahags- og fjármálaráðuneytinu, kemur fram að markmiðið sé að mynda heilstæða lausn á þeim mikla vanda sem við er að etja. „Saman mynda þessi frumvörp heildstæða áætlun um lausn á þeim vanda sem útgreiðsla fjármuna frá föllnum fjármálafyrirtækjum til kröfuhafa við uppgjör þeirra myndi hafa að óbreyttu. Áætlað er að tekjur ríkissjóðs af stöðugleikaskatti geti orðið 682 milljarðar króna að teknu tilliti til frádráttarheimildar, en skattupphæð án frádráttar nemur tæpum 850 milljörðum króna. Stöðugleikaskilyrðin leysa vandann með áþekku umfangi og stöðugleikaskattur en samkvæmt annarri aðferðafræði og nálgun,“ segir í tilkynningu frá ráðuneytinu.
Þá er jafnframt gert ráð fyrir að staða ríkissjóðs muni batna til muna, þegar aðgerðaráætluninni verður hrint í framkvæmd, en horft til þess að skuldir ríkisins verði greiddar niður og tugmilljarða vaxtakostnaður ríkisins lækkaður til muna. „Mikilvægt er að fjármunir sem renna til ríkisins vegna stöðugleikaskilyrða eða skatts hafi ekki óæskileg áhrif á peningamagn eða önnur þensluhvetjandi áhrif sem gætu raskað efnahagslegum stöðugleika. Verður þessum fjármunum, eftir því sem tækifæri gefast, varið til lækkunar skulda hins opinbera, enda hefur ríkissjóður borið mikinn kostnað af hruni fjármálakerfisins. Þegar uppgjör slitabúanna og losun fjármagnshafta er lokið verður stórum óvissuþætti eytt um efnahag ríkissjóðs og gert er ráð fyrir að vaxtaálag og vaxtakostnaður lækki umtalsvert,“ segir í tilkynningu frá ráðuneytinu.