Fjórir nemendur í 10. bekk Réttarholtsskóla, þau Hjalti Jóel Magnússon, Laura Sólveig Lefort Scheefer, Marinó Ívarsson og Mikael Dagur Hallsson, gengu Hvalfjörðinn á dögunum og söfnuðu um leið styrkjum fyrir Lauf, félag flogaveikra.
Gangan og söfnunin var liður í lokaverkefni krakkanna í skólanum fyrir útskrift, en þeir gengu frá austanverðum gangamunanum að Hvalfjarðargöngunum að Ferstiklu, eða um 55 kílómetra leið. Fjórmenningarnir lögðu af stað í gönguna á mánudaginn, og komust svo á leiðarenda í gær.
Fyrsta daginn gekk hópurinn í fjóra og hálfa klukkustund, eða um átján kílómetra leið. Þriðjudagurinn var svo tekinn með trukki, en þá gengu krakkarnir í átta og hálfa klukkustund, og lögðu að baki hátt í 27 kílómetra. Lokaspretturinn var svo tekin í gær, en þá gengu krakkarnir í tvo tíma á leiðarenda, eða tólf kílómetra.
Skemmtileg og krefjandi ganga
„Gangan var skemmtileg og við fengum að kynnast hvert öðru mjög vel. Hún var rosalega erfið og tók mikið á, en við náðum að klára hana á þremur dögum,“ segir Laura Sólveig í samtali við Kjarnann.
„Ástæðan fyrir því að við völdum Lauf til að safna fyrir var sú að okkur finnst félagið standa fyrir málefni sem þurfi meiri umfjöllun í samfélaginu. Á Íslandi er áætlað að fjórir til tíu af hverjum 1000 séu með flogaveiki og flestir sem greinast með sjúkdóminn eru yngri en 20 ára. Einn okkar í hópnum þekkir fjölskyldu sem hefur glímt við sjúkdóminn og hefur því séð hversu erfitt það er að glíma við slíkan sjúkdóm, bæði fyrir manneskjuna með flogaveiki og einnig fjölskylduna.Við viljum minnka fordóma gagnvart flogaveiki og auka þekkingu fólks á sjúkdómnum svo að það geti brugðist rétt við ef að manneskja í návígi fær flog,“ segir Laura Sólveig Lefort Scheefer.
Fjórmenningarnir hafa nú þegar safnað um 55 þúsund krónum, en söfnun þeirra stendur enn yfir. Þeim sem vilja leggja henni lið er bent á bankareikning 0334-26-005774 á kennitölunni 610884-0679.